Elliði sáttur í sóttkví

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, hefur ekki miklar áhyggjur af syninum, …
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, hefur ekki miklar áhyggjur af syninum, sem sem betur fer kennir sér ekki meins. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Ef ég fengi að velja einn tímapunkt og einn stað í heiminum til að takast á við faraldur sem þennan þá myndi ég velja Ísland árið 2020.“ Þetta segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, í samtali við mbl.is. Elliði birti fyrr í kvöld færslu á fésbókarsíðu sinni þar sem hann segir frá því að sonur sinn sé nýgreindur með Covid-19-sjúkdóminn, en að veturinn 1880-1881, sem þá hafi verið kallaður frostaveturinn mikli, hafi komið upp veikindi í barnahópi langalangafa hans. Vafalaust hafi það valdið honum áhyggjum en áhyggjur Elliða, sem er nú með fjölskyldunni í sóttkví, viti fremur að því hvaða mynd fjölskyldan eigi að velja sér á Netflix.

„Rétt er að taka fram að hann er ekkert „veikur“ og tekur þessu enn sem komið er létt,“ segir Elliði um veikindi sonarins og segir aðspurður að hann hafi gaman af „sögugrúski“ og að samanburður við fyrri tíma geti sett hlutina í áhugavert samhengi. „Þetta fær mann til að setja hlutina í samhengi þegar maður fer að hafa áhyggjur af barninu sínu sem smitast.“

Svo stutt frá því að fólk bjó í moldarkofum

Elliði segist enn sem komið er gríðarlega ánægður með hvernig spilað sé úr hlutunum hér og segir: „Maður er bara svo stoltur af því hvað við erum langt komin sem þjóð, af því að það er ekki meira en bara tveir eða þrír mannsaldrar frá því að fólk bjó í moldarkofum og þurfti að takast á við þessa hluti og mun verri.“ Hann bætir við að sé styttra leitað aftur, sem dæmi til þess tíma sem spænska veikin geisaði, hafi stór hluti þjóðarinnar enn þá búið í moldarkofum.

„Í dag búum við við eitt fullkomnasta heilbrigðiskerfi í heimi, og erum með afar þróaða innviði og getum þess vegna tekist á við þetta. Það skiptir svo miklu að við, almenningur, förum eftir því sem fyrir okkur er lagt því það er ekki til neins að eiga þessa sterku innviði ef við getum ekki skilað því litla sem er farið fram á við okkur, að vera heima hjá okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert