Fáar bráðakomur valda áhyggjum

Ýttu á 1 fyrir COVID-19 og 2 fyrir annað, heyrist …
Ýttu á 1 fyrir COVID-19 og 2 fyrir annað, heyrist þegar hringt er í 1700. Óskar hvetur fólk til að hafa samband við heilsugæsluna, þó að erindi þeirra falli undir númer tvö. Ljósmynd/Lögreglan

Óskar Reykdalsson forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins lýsir yfir áhyggjum af því að fólk með aðra sjúkdóma en COVID-19 veigri sér um þessar mundir við að leita sér læknisþjónustu til þess að valda ekki álagi á heilsugæslunni. Bráðakomum vegna annars hefur fækkað.

Hann ítrekar að hefðbundin þjónusta og aðgerðir vegna COVID-19 séu aðskilin fyrirbæri í starfi heilsugæslunnar. Þannig séu til dæmis sérstakir bílar sem fara á vettvang vegna Covid-19-smita og vegna annarra ótengdra mála. „Við hvetjum fólk til að hafa samband, það skiptir ekki máli af hvaða toga það er, ný alvarleg einkenni eða gamlir krónískir sjúkdómar ótengdir COVID-19,“ sagði Óskar.

Þannig sé það ljóst þegar maður hringi í 1700 hvert erindi manns sé, því maður velji 1 fyrir COVID en 2 fyrir annað.

Aðspurður sagði Óskar að símtölum vegna andlegrar vanlíðunar hefði fjölgað nokkuð vegna kórónuveirufaraldursins. „Ástandið hefur áhrif á heilsu fólks jafnvel þó að það sé ekki beintengt COVID-19,“ sagði Óskar.

Margir eru að hringja og spyrja út í einangrun og sóttkví, heimili eru mörg blönduð, þar sem sumir eru lausir úr sóttkví en aðrir ekki, og reglurnar geta orðið flóknar í þeim aðstæðum. Símtölin geta því orðið löng en álagið hefur verið að ná jafnvægi hjá heilsugæslunni.

Sömuleiðis hefur verið nokkuð um að vinnuveitendur leiti ráða vegna aðstæðnanna, ásamt því sem fjöldi manna þarf að sækja sér vottorð um aðstæður sínar.




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert