Snjókófið

Apríl er grimmastur mánaða, sagði maðurinn, en þá er gott …
Apríl er grimmastur mánaða, sagði maðurinn, en þá er gott að vera öruggur í byrgi sínu. Ljósmynd/Aðalheiður Eysteinsdóttir

Siglfirðingar hafa síðustu daga setið fastir í því sem verður ekki kallað annað en tvöföld einangrun. Fyrst er það samkomubannið sem skilyrðir tilveru fólks eins og landsmenn þekkja núorðið allir en ofan á kófið bætist snjókóf þvílíkt, að á því og venjulegu vorhreti er frekar eðlis- en stigsmunur.

Vinnustofa myndlistarmannsins Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur í Alþýðuhúsinu tekur í þessum aðstæðum að líkjast neðanjarðarbyrgi, eins og hún lýsir. Gluggarnir, sem eru í 2,5 metra hæð, eru á kafi í snjó frá toppi til táar.

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir myndlistarmaður á Siglufirði er að hefja sína …
Aðalheiður S. Eysteinsdóttir myndlistarmaður á Siglufirði er að hefja sína fimmtu viku í sóttkví. Ljósmynd/Aðalheiður Eysteinsdóttir

Aðalheiður unir þar í meðallagi vel við sinn hlut en hún er á morgun að hefja sína fimmtu viku í sjálfskipaðri sóttkví, eins og sú einangrun er kölluð. Hún hefur undirliggjandi sjúkdóma og forðast veiruna því í lengstu lög, ekki síður þó um leið til þess að forðast það að íþyngja heilbrigðiskerfinu óþarflega.

„Ég lýg því ekki að það koma dagar þar sem þetta er ansi erfitt,“ segir Aðalheiður í samtali við mbl.is. Hún hefur verið ein síðan 8. mars. „Vika tvö var líklega erfiðust en um það leyti áttaði ég mig samt á hvað margar vikur af þessu væru fram undan og þá tók ég ákvörðun um að sætta mig við ástandið með bros á vör. Í raun er ég auðvitað sátt við öryggið sem ég bý við hérna,“ segir Aðalheiður.

Hún segir aðstæðurnar reyna á hvað maður er góður félagsskapur. Og hefur hún reynst sér vel? „Já, ég er svona yfirleitt bara nokkuð ánægð með mig. Ég er auðvitað svo heppin að heimili mitt er einnig vinnustofan mín, þannig að þetta er griðastaður. Hér kemst ég í að vinna verkefni sem ég hefði hvort eð er þurft að skila af mér. Ég ákvað því bara að loka hérna inn, svo ég gæti bara unnið án þess að hafa líka áhyggjur af því að eitthvað bærist hérna inn,“ segir Aðalheiður.

Háir gluggar vinnustofunnar eru á kafi í snjó en hún …
Háir gluggar vinnustofunnar eru á kafi í snjó en hún fær smá súrefni þegar birtan er mest, eins og sést á myndinni. Ljósmynd/Aðalheiður Eysteinsdóttir

Snjórinn er þykkur og myrkrið eftir því

Ofan á einangrunina kemur snjórinn. Tilfinningar Aðalheiður gagnvart honum eru blendnar, en það er huggun harmi gegn að sama hvernig vindar blása á enginn að fara út erindislaust. „Það myndi auðvitað létta lund að sjá sól og blíðu og fá birtu inn í húsið en á sama tíma er maður bara hamingjusamur að þurfa bara að vera inni þegar veðrið er svona,“ segir hún.

Að sögn Aðalheiðar er það bara myrkrið sem getur reynst hvimleitt, því dagsbirtan brýtur sér ekki leið í gegnum snjóinn. Og það væri óðs manns æði að moka snjóinn, sem hleypur jafnharðan í eigið skarð.

„Vorhret“
„Vorhret“ Ljósmynd/Aðalheiður Eysteinsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert