Suðvestan hvassviðri síðdegis

Kort/Veðurstofa Íslands

Austan strekkingur í kvöld sunnan- og austanlands með rigningu og hlýnar. Áfram stórhríð norðvestan- og vestanlands, en lagast þar í nótt og fyrramálið. Aðgerðalítið veður fyrripartinn á morgun, en gengur í suðvestan hvassviðri síðdegis með skúrum og síðar éljum.

Appelsínugul viðvörun er í gildi við Faxaflóa til klukkan tvö í nótt. „Norðaustan 20-28 m/s og mjög snarpar vindhviður við fjöll. Snjókoma og skafrenningur með lélegu skyggni. Ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi.“

Við Breiðafjörð er appelsínugul viðvörun í gildi til klukkan fimm í fyrramálið. „Norðaustan 23-30 m/s og mjög snarpar vindhviður við fjöll. Snjókoma og skafrenningur með lélegu skyggni. Ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi.“

Á Vestfjörðum er norðaustan stórhríð og appelsínugult ástand til klukkan sjö í fyrramálið. „Norðaustan 23-30 m/s og mjög snarpar vindhviður við fjöll. Talsverð snjókoma og skafrenningur með lélegu skyggni. Ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi.“

Strandir og Norðurland vestra — appelsínugult ástand til klukkan tvö í nótt. „Norðaustan 18-25 m/s og snjókoma og skafrenningur með lélegu skyggni. Ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi.“

Veðurspá fyrir næstu daga

Snýst í austan 10-18 m/s í kvöld sunnan- og austanlands með talsverðri rigningu og hita 2 til 8 stig. Norðaustan 20-28 og snjókoma norðvestan- og vestanlands, frost 1 til 5 stig.

Austan 8-13 og væta á köflum fyrripartinn á morgun með hita víða á bilinu 3 ti 8 stig. Gengur í suðvestan 13-20 seinnipartinn á morgun með skúrum og síðar éljum og fer að kólna aftur.

Á þriðjudag: Suðlæg eða breytileg átt, 5-13 m/s. Víða líkur á éljum, en bjartviðri austanlands. Hiti um og undir frostmarki. Snýst í norðlæga átt 8-15 um kvöldið með snjókomu norðan til á landinu, en hægari og léttir til syðra.

Á miðvikudag: Norðlæg átt 3-8 og léttskýjað, en 8-13 og dálítil él norðaustan til á landinu framan af degi. Frost 1 til 6 stig, en frostlaust við suðurströndina yfir daginn.

Á fimmtudag (skírdagur): Fremur hæg suðlæg eða breytileg átt með þurru og björtu veðri og vægu frosti, en 8-13 og lítilsháttar skúrir með suðurströndinni, og hiti að 5 stigum þar.

Á föstudag (föstudagurinn langi): Suðaustanátt og rigning eða slydda með köflum, hiti 1 til 5 stig. Bjartviðri og hiti um frostmark fyrir norðan.

Á laugardag: Suðaustan- og austanátt og víða dálítil rigning eða slydda, úrkomumest suðaustanlands. Áfram þurrt fyrir norðan. Hiti 1 til 7 stig, mildast syðst.

Á sunnudag (páskadagur): Suðvestlæg átt og skýjað, en bjartviðri norðaustan til. Áfram milt í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert