Tekist hefur að vernda sjúkrahúsin

Að sögn Þórólfs verður hápunkti náð núna fljótlega í apríl …
Að sögn Þórólfs verður hápunkti náð núna fljótlega í apríl en hvað sjúkrahúslegur snertir er þróunin um viku eftir á, borið saman við þau líkön sem höfðu verið teiknuð upp. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðgerðirnar sem gripið hefur verið til til að sporna við kórónuveirufaraldrinum á Íslandi hafa borið þann árangur sem ætlast var til, að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Tekist hefur að vernda sjúkrahúsin.

„Við erum að standa okkur betur en líkanið bjóst við,“ sagði Þórólfur Guðnason á upplýsingafundi almannavarna í dag. „En það er ljóst að ekki má mikið út af bregða og hópsýkingar eins og við erum að sjá úti á landi geta breytt tölunni.“

Í upphafi var fjöldi sjúklinga á gjörgæslu áhyggjuefni og fór fram úr spám, en að sögn Þórólfs hefur tekist að útskrifa marga af gjörgæslu, sem færir okkur nær bjartsýnni spám um innlagnir á gjörgæslu.

Verið er að teikna upp það sem tekur við þegar samkomubanninu er aflétt 4. maí. Í gær kom fram á fundinum að þau áform yrðu tilkynnt á miðvikudaginn. „Það er enginn sem veit nákvæmlega hvernig hann á að aflétta aðgerðum og hversu hratt hann á að gera það. Ég held að það viti þetta enginn nákvæmlega, þar sem engin tvö þjóðfélög eru eins og hver gerir þetta með sínum hætti. Ég veit að þetta er mjög óþægilegt fyrir alla að vita ekki hvað gerist eftir 4. maí. Við vitum það ekki heldur en við erum að ráða ráðum okkar,“ sagði Þórólfur og ítrekaði að það væri ráðherra sem tæki endanlega ákvörðun í þessum efnum.

Hópsýkingarnar sem Þórólfur vísar til hafa verið verstar í Vestmannaeyjum, á Hvammstanga, í Bolungarvík og á Ísafirði. Hann sendir heilbrigðisstarfsfólki þar baráttukveðjur, sérstaklega í því óveðri sem gengið hefur yfir landið um helgina, sem hefur flækt málin. Til dæmis hefur reynst erfitt að senda sýni suður til greiningar og áfram vantar hjúkrunarfræðinga.

Að sögn Þórólfs verður hápunkti náð núna fljótlega í apríl en hvað sjúkrahúslegur snertir er þróunin um viku eftir á, borið saman við þau líkön sem höfðu verið teiknuð upp.

Fjöldi staðfestra smita af völd­um kór­ónu­veirunn­ar hér­lend­is er nú 1.486 sam­kvæmt nýj­ustu töl­um á covid.is. Greind­um smit­um fjölgaði um 69 í gær en töl­urn­ar sýna fjölda smita eft­ir gær­dag­inn. Tek­in hafa verið sam­tals 25.394 sýni. 1.054 eru í ein­angr­un, 42 eru á sjúkra­húsi og 11 á gjör­gæslu. 328 er batnað.




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert