„Þetta ár kemst í sögubækurnar“

„Þetta ár kemst í sögubækurnar,“ skrifaði Sverrir Arnar Friðþjófsson, læknakandidat hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands í Borgarnesi með myndum sem hann setti á Instagram. Þær sýna samstarfsfólk hans í varnarbúningum og við sýnatökur vegna kórónuveirunnar. Sverrir segir að hann hafi hlakkað til kandidatsársins og reiknað með að það yrði töluverð áskorun. Það sem af er hefur árið farið langt fram úr því sem Sverrir bjóst við og þar vegur kórónuveirufaraldurinn þyngst.

Sverrir Arnar Friðþjófsson, læknakandidat hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands.
Sverrir Arnar Friðþjófsson, læknakandidat hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands.

Sýni tekin úti á bílastæði

Sverrir sagði að fólk hefði samband við heilsugæsluna fyndi það til einhverra einkenna. Læknar og hjúkrunarfræðingar tala við fólkið og ákveða framhaldið. Þeir sem ástæða þykir til að skoða nánar eru boðaðir til sýnatöku.

„Þá myndast hér röð af bílum. Við vitum hverjum við eigum von á og erum búin að undirbúa okkur og prenta út límmiða með upplýsingum um hvern og einn,“ sagði Sverrir. Tekið er stroksýni hjá þeim sem hafa væg einkenni þar sem þeir sitja í bíl sínum utan við heilsugæsluna. Ef fólk er farið að sýna meiri einkenni og á t.d. í öndunarerfiðleikum er bæði tekið stroksýni og gerð skoðun. Hún fer fram í sérstöku einangruðu rými sem var útbúið í heilsugæslustöðinni. Þar er allt er vandlega sprittað og hreinsað á milli skoðana.

Landsmenn eru orðnir vanir því að sjá myndir af heilbrigðisstarfsfólki í sóttvarnarbúningum eða hlífðarfatnaði. Sverrir sagði að það væri ekki sama hvernig menn umgengjust þennan fatnað.

Mikilvægt að fara rétt að

„Það er mjög mikilvægt að fara rétt að. Ekki síst þegar farið er úr búningnum. Það þarf að gera það skref fyrir skref svo maður smiti ekki sjálfan sig hafi maður komið nálægt einstaklingi sem er sýktur af COVID-19. Þá er orðin smithætta af ytra byrði búningsins,“ sagði Sverrir. Hann sagði að það gæti orðið töluvert heitt inni í gallanum og þá væri kostur að það hefði verið fremur svalt úti undanfarið þegar sýnin hafa verið tekin. Búningnum tilheyra hlífðargrímur sem Sverri þykja ekki sérlega þægilegar. Innan við þær eru gleraugu og á getur komið móða. Svo eru grímur fyrir öndunarfærunum sem geta sigið aðeins. Þá má ekki láta undan freistingunni að lagfæra grímuna með hanskaklæddum höndunum. Það er alveg bannað.

Venjulega eru þrír starfsmenn við sýnatökuna hverju sinni. Læknir, hjúkrunarfræðingur og aðstoðarmaður sem oft er hjúkrunarfræðingur, sjúkraliði eða sjúkraflutningamaður. Sýnin eru svo send til greiningar hjá Landspítalanum í Reykjavík. Haft er samband við alla sem gefa sýni og þeir látnir vita um niðurstöður greiningarinnar. Ef greinist smit fer í gang ferli og haft er samband við rakningarteymi sem rekur smitið.

Mjög lærdómsríkur tími

„Ég hef lært mjög mikið af þessu,“ sagði Sverrir. Það hefur verið mjög lærdómsríkt að vinna með samstarfsfólki sem er allt fagmenn í fremstu röð, bæði læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraflutningamenn og aðrar heilbrigðisstéttir.

„Það er margt að koma í ljós núna,“ sagði Sverrir. Eitt af því er hvernig kórónuveirufaraldurinn hefur haft áhrif á marga aðra en þá sem hafa smitast. Til dæmis hafa sumir verið skyndilega gripnir miklum kvíða, fólk sem hefur ekki glímt við kvíða áður. Þá gott að geta rætt við það og róað.

Sverrir sagði að það hefði verið mjög lærdómsríkt fyrir sig, borgarbúann, að fá vinna í Borgarnesi og kynnast muninum á borginni og landsbyggðinni.

„Ég hef mikið verið að velta fyrir mér sérnámi í heimilislækningum og reynslan af því að starfa hér hefur frekar styrkt mig í þeim hugleiðingum en hitt,“ sagði Sverrir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert