„Ég elska alla“

Hlynur Björnsson Maple og Alexía Erla Hildur Hallgrímsdóttir settu upp …
Hlynur Björnsson Maple og Alexía Erla Hildur Hallgrímsdóttir settu upp með umhyggju í huga.

Facebooksíðan „Hrósum hvert öðru“ hefur öðlast nýtt líf í samgöngubanninu að undanförnu. „Við settum þessa síðu upp í september sem leið til þess að vera jákvæð og reyna að stuðla að vellíðan,“ segir Hlynur Björnsson Maple, sölumaður hjá Ölgerðinni, um síðuna sem hann og Alexía Erla Hildur Hallgrímsdóttir eiga heiðurinn af. „Eitt hrós á dag kemur lífinu í lag“ er yfirskriftin.

Alexía segir að september hafi orðið fyrir valinu vegna þess að þá hafi dimmir vetrarmánuðir verið fram undan og fólki ekki veitt af hrósi. Á síðunni útskýrir hún að stundum vilji litlu hlutirnir gleymast þegar komi að þakklæti, en þeir skipti gríðarlega miklu máli. Því hvetji hún aðra til að hjálpa þeim að dreifa kærleikanum og bjóða fjölskyldu og vinum í hópinn. „Hlynur hefur alltaf haft mikinn drifkraft þegar hann fær einhverja hugmynd og satt best að segja er það honum að þakka að síðan er í raun og veru til, hún varð að veruleika með hans jákvæðni og bjartsýni.“

Mikilvægt að hrósa

Viðbrögð við síðunni voru góð strax í byrjun, þau tóku kipp í desember og fóru síðan á flug samfara aukinni umfjöllun um kórónuveiruna. „Viðtökurnar hafa verið vonum framar og síðan hefur aldrei verið virkari en nú,“ segir Alexía og Hlynur tekur í sama streng.

Ekki ætti að vefjast fyrir neinum að hrósa öðrum en Alexía bendir á að oft gleymi fólk því. „Það hugsar það en gerir það ekki,“ segir hún og leggur áherslu á að fólk eigi ekki að halda að sér höndum í þessu efni. Hún hvetur það til að þora að hrósa. „Viðtökurnar við síðunni nú sýna að fólk þarf á einhverju jákvæðu og fallegu að halda.“

Að undanförnu hefur þríeykinu landskunna, Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni, Ölmu D. Möller landlækni og Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni, verið hælt í hástert, fyrirtækjum, sem hafa boðið landsmönnum aukna þjónustu í samskiptabanninu, og einstaklingum eins og foreldrum, sem hafa hlaupið í skarðið og gætt ömmu- og afabarna, svo dæmi séu tekin. Týr Theo Norðdahl, ellefu ára, fékk sérstakt hrós fyrir að hafa rutt gangstíga í Vesturbæ Reykjavíkur á dögunum og fyrirtækinu Finni ehf. var hrósað fyrir að bjóða ellilífeyrisþegum á Akureyri upp á frían snjómokstur í ljósi aðstæðna.

„Ég elska alla“ með Shady Owens og Hljómum er það fyrsta sem heyrist þegar hringt er í Alexíu. „Ég var svo heppin að kynnast fjölskyldu Rúna Júl. og góðri og fallegri tónlist í kjölfarið, þegar ég bjó í Grindavík, þar sem ég ólst upp. Ég féll fyrir þessu lagi, þegar ég var 17 ára, sönglínan varð þema mitt og þess vegna valdi ég hana í símann.“

Alexía leggur mikið upp úr kærleikanum og segist ætíð líta á björtu hliðarnar. Hún hefur starfað sem þjónn á veitingastaðnum Kol á Skólavörðustíg frá upphafi og tekur ljósmyndir í frístundum. „Ég var alin upp í kærleika og hef hjartað og góðmennskuna frá mömmu, rétt eins og listræna augað,“ segir hún, en móðir hennar er Hildur Hilmarsdóttir handavinnukennari. „Ég tek öllum eins og þeir eru, allir eru fullkomnir, hver á sinn hátt,“ heldur hún áfram og bætir við að hún sé mikil Pollíanna. „Jákvæðni auðveldar að takast á við lífið á hverjum degi og allir eiga skilið að fá hrós.“

Viðtalið birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. apríl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert