Sýni tekin úr um 45% Eyjamanna

Hátt í 2.000 Eyjamenn hafa farið í sýnatöku vegna COVID-19 enn sem komið er, en það eru um 45% íbúa Vestmannaeyja. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í færslu Írisar Róbertsdóttur, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, á Facebook. Íris segir að eðlilega séu mörg smit staðfest í Vestmannaeyjum þar sem svo hátt hlutfall íbúa hafi farið í sýnatöku. 

Ef við yfirfærum þetta hlutfall sýnatöku á landið allt væri búið að skima um 170.000 Íslendinga en ekki um 28.000, eins og raunin er; og þá væri örugglega búið að staðfesta miklu fleiri smit á landsvísu,“ skrifar Íris. 

Umfangsmesta leit í einu byggðarlagi

Um 100 smit hafa verið staðfest í Vestmannaeyjum en Íslensk erfðagreining (ÍE) tók rúmlega 1.500 þessara sýna. Íris þakkar ÍE og Kára Stefánssyni, forstjóra fyrirtækisins, sérstaklega fyrir sem og Hirti Kristjánssyni, umdæmislækni sóttvarna, og hans fólki „fyrir frábæra frammistöðu við sýnatökuna sjálfa, sem er sú langumfangsmesta sem framkvæmd hefur verið í einu byggðarlagi á Íslandi, og sjálfsagt þótt víðar væri leitað“.

Íris segir í raun mjög gott að svo umfangsmikil skimun hafi farið fram í Eyjum. Þá er hægt að grípa til viðeigandi ráðstafana með einangrun og sóttkví, sem sýnt hefur verið fram á að virka svo vel til að hefta frekara smit. Þetta gefur okkur líka fyrirheit um að við komumst fyrr út úr þessu en ella.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert