Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur sent Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra tillögur um hvaða skref skuli tekin í afléttingu aðgerða þegar þar að kemur 4. maí.
„Tillögurnar innihalda í rauninni það sem við höfum sagt áður: Við förum í öfuga röð, þ.e.a.s. aðgerðunum sem voru síðast settar verður fyrst aflétt,“ sagði Þórólfur.
„En mér er það algjörlega ljóst að við munum sæta gagnrýni fyrir að fara of hægt og jafnvel líka frá sumum fyrir að fara of hratt,“ sagði hann jafnframt.
Hann sagði frá þessu á daglegum upplýsingafundi almannavarna en gaf ekkert upp um hvað fælist í þessum tillögum. Ætla má að það verði gefið upp á allra næstu dögum. Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögurnar sem komið hafa fram á minnisblöðum Þórólfs hingað til.
Af orðum framvarðarsveitarinnar að dæma síðustu daga verður farið hægt í afléttingu þessara aðgerða en hvað það nákvæmlega þýðir kemur ekki í ljós fyrr en tillögurnar verða kynntar.
Þórólfur sagði þá að Íslendingar ættu langt í land með að geta virkilega hrósað sigri gagnvart faraldrinum. Ljóst væri að okkur hefði gengið mjög vel í baráttunni og það mætti þakka þeim aðgerðum sem gripið hefði verið til: „Faraldurinn er verulega á niðurleið hér. Það er lítið samfélagslegt smit og ég vil þakka það þeim samfélagslegu aðgerðum sem í gangi hafa verið.“
Kórónuveirusýkingum hefði fækkað mjög undanfarið, en reyndar hefði orðið fjölgun í „annars konar sýkingum“, sagði Þórólfur og brosti út í eitt. Ekki fer sögum af því hvers konar sýkingar ræðir um, enda voru þessi orð aðeins svo mörg.