„Dapurlegt“ að samstarfsflokkur leggi svona fram

Rósu Björk Brynjólfsdóttur líst illa á frekari framkvæmdir á vegum …
Rósu Björk Brynjólfsdóttur líst illa á frekari framkvæmdir á vegum NATO á Suðurnesjum. mbl.is/Hari

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lagði fram tillögur á ráðherrafundi um ríkisfjármál í apríl um að ráðast í framkvæmdir í Helguvíkurhöfn á vegum Atlantshafsbandalagsins. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og varaforseti utanríkismálanefndar, segir „dapurlegt að samstarfsflokkurinn sé að leggja svona tillögur fram“. 

Þær eru að hennar mati ekki leiðin til þess að koma atvinnulífi á Suðurnesjum af stað. Þegar sé fyrirhuguð mikil hernaðaruppbygging á Suðurnesjum og ekki eigi að bæta við hana með aðgerðum sem þessum. 

Ánægð að ráðherrar hafi staðið í lappirnar

Sagt var frá því í Morgunblaðinu í morgun að uppbyggingartillagan hafi mætt mótstöðu Vinstri grænna. Rósa segist ekki þekkja í hverju sú mótstaða fólst, enda hafi málið aldrei formlega verið rætt, en fagnar henni engu síður. „Ég er ánægð að sjá það, ef rétt reynist, að ráðherrar Vinstri grænna í ríkisstjórn hafi staðið í lappirnar og lýst sig andsnúin þessum fyrirætlunum,” segir hún.

Hún bætir við að málið hefði þó hvort sem er þurft þinglega meðferð til þess að af því hefði orðið.

Rósa ítrekar sjónarmið sem hún lýsti í samtalið við Morgunblaðið í liðnum mánuði: „„Mér finnst sér­stakt að kjörn­ir full­trú­ar á Suður­nesj­um séu að leita til NATO vegna upp­bygg­ing­ar á innviðum. Eins og við vit­um eru upp­bygg­ing og viðhald á veg­um Atlants­hafs­banda­lags­ins þegar um­deild mál, þannig að ef við vær­um að fara í hernaðartengda upp­bygg­ingu á hafn­ar­svæðum væri það eitt­hvað sem þyrfti mun ít­ar­legri umræðu við, enda um þjóðarör­ygg­is­mál að ræða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert