Frumvörp er varða framhald á hlutastarfaleið stjórnvalda, aðstoð vegna launakostnaðar á uppsagnarfresti, einföldun á fjárhagslegri skipulagningu fyrirtækja og atvinnurekstrarbann til að sporna við kennitöluflakki voru samþykkt á ríkisstjórnarfundi í morgun.
Frumvörpin eru hluti af framhaldsaðgerðum stjórnvalda í efnahagsmálum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru sem kynntar voru 28. apríl sl. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Ásmundur Daði Einarsson, félags- og barnamálaráðherra, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra standa að frumvörpunum og gert er ráð fyrir því að þau verði sett á dagskrá þingfundar á mánudaginn.
Bjarni greindi frá frumvarpinu í samtali við mbl.is fyrr í dag og sagði að um nýtt úrræði væri að ræða. Um er að ræða fjárstuðning úr ríkissjóði til greiðslu hluta launakostnaðar atvinnurekenda á uppsagnarfresti launþega með það að markmiði að draga úr líkum á fjöldagjaldþrotum fyrirtækja og tryggja réttindi launafólks.
Skilyrði fyrir stuðningnum eru að veruleg fjárhagsleg röskun hafi orðið á atvinnurekstri vegna ráðstafana sem gripið hefur verið til eða aðstæðna sem hafa skapast vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
„Stuðningurinn nemur að hámarki 85% af launakostnaði starfsmanns á uppsagnarfresti, þó að hámarki 633.000 kr. á mánuði vegna launa og að hámarki 85.455 kr. á mánuði vegna lífeyrissjóðsiðgjaldshluta atvinnurekanda og að hámarki 1.014.000 kr. vegna orlofslauna sem launamaður kann að eiga rétt á, fyrir fullt starf og hlutfallslega fyrir hlutastarf. Stuðningurinn er veittur á samningsbundnum uppsagnarfresti starfsmanns, þó aldrei lengur en í þrjá mánuði,“ segir á vef Stjórnarráðsins.
Frumvarp félagsmálaráðherra um hlutastarfaleiðina gerir ráð fyrir því að hún verði framlengd til 31. ágúst á þessu ári en með tilteknum breytingum. Meðal breytinga er skilyrði um 25% samdrátt í starfsemi vinnuveitanda frá 1. mars og til þess dags sem launþegi sækir um atvinnuleysisbætur eða staðfestir áframhaldandi nýtingu sína á hlutabótaleiðinni.
Vinnumálastofnun fær auknar heimildir til gagnaöflunar og verður þannig heimilt að krefja vinnuveitendur um endurgreiðslu atvinnuleysisbóta auk 15% álags komi í ljós að skilyrði fyrir greiðslu bótanna hafi ekki verið uppfyllt.
„Vinnuveitendum sem nýta leiðina verður gert að staðfesta að þeir hafi ekki í hyggju að greiða út arð til hluthafa, lækka hlutafé með greiðslu til hluthafa, greiða óumsamda kaupauka, kaupa eigin hlutabréf eða greiða eigendum sínum eða æðstu stjórnendum mánaðarlaun sem nema hærri fjárhæð en 3.000.000 kr til 31. maí 2023. Þá verður Vinnumálastofnun heimilt að birta lista yfir vinnuveitendur launafólks sem fær greiddar bætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli,“ segir um frumvarpið.
Frumvörp dómsmálaráðherra snúast annars vegar um tímabundna einföldun á fjárhagslegri endurskipulagningu og hins vegar um aðgerðir gegn kennitöluflakki.
Komið verður á fót nýju úrræði sem snýr að fjárhagslegri endurskipulagningu þannig að fyrirtækjum, sem orðið hafa fyrir verulegri afkomuröskun, verði heimilt að fá greiðsluskjól á meðan unnið er að endurskipulagningu á fjárhag þess að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Úrræðið mun hjálpa fyrirtækjum að komast í skjól með einfaldari og kostnaðarminni hætti.
Með frumvarpi um aðgerðir gegn kennitöluflakki verða gerðar breytingar til að sporna við kennitöluflakki og misnotkun hlutafélagaformsins. Dómara verður heimilt að úrskurða þann sem ekki telst hæfur til að stýra hlutafélagi, einkahlutafélagi og í vissum tilvikum samlagshlutafélagi, í atvinnurekstrarbann sem að meginreglu vari í þrjú ár vegna alvarlegri tilvika.
Tilgangur frumvarpsins er að vernda almenning og samfélagið í heild sinni fyrir misnotkun á hlutafélagaforminu og á ekki að þrengja að frumkvöðlastarfsemi né draga úr hvata til að taka þátt í atvinnurekstri.