Áfram eldgamli góði Kaffivagninn

Kaffivagninn er einn elsti veitingastaður landsins.
Kaffivagninn er einn elsti veitingastaður landsins. Ljósmynd/Kaffivagninn

Verið er að ganga frá pappírum um sölu FoodCo ehf. á fasteign og rekstri Kaffivagnsins á Granda, eins elsta veitingastaðar landsins. Salteyri ehf. er að kaupa fasteignina og mun ganga frá leigusamningi um húsnæðið til Landvits ehf., sem mun áfram reka „gamla góða Kaffivagninn“ á staðnum.

Viggó Sigursteinsson frá Landviti staðfesti í samtali við mbl.is að samningaviðræður séu langt komnar.

Hvað tekur við í húsnæðinu?

„Hugmyndin hjá rekstrarfélaginu er að halda í gamla góða Kaffivagninn og ekki breyta miklu, nema heldur bæta í í hádeginu,“ segir Viggó í samtali við mbl.is. Sjálfur var hann kokkur til margra ára en hefur frá aldamótum verið í fasteignum.

Viggó mun leigja húsnæðið af nýju eigendunum hjá Salteyri. Salteyri er fasteignafélag sem á meðal annars nokkuð af fasteignum í Hafnarfirði. Þar er Pétur Björnsson stjórnarformaður. Að sögn Péturs áleit félagið húsnæðið góðan fjárfestingarkost og sló til. Hann upplýsir ekki um söluverð fasteignarinnar en talar um „sanngjarnt verð“.

Tekjufall í kórónuveirufaraldrinum

Kaffivagninn er einn af fjölmörgum sem FoodCo rekur. Aðrir staðir á vegum þess eru American Style, Hamborgarafabrikkan, Saffran, Aktu taktu og Eldsmiðjan. Eftir lokun og tilheyrandi tekjufall á Kaffivagninum vegna kórónuveirufaraldursins selur félagið hann nú frá sér.

Í sam­komu­bann­inu höfðu þeir fyrst um sinn opið en 24. mars til­kynntu þeir að sum­um veit­inga­stöðunum yrði lokað tíma­bundið. Þar á meðal var Kaffi­vagn­inn og ólíkt öðrum veit­inga­stöðum á veg­um fé­lags­ins var ekki boðið upp á heimsend­ingu þaðan.

https://www.mbl.is/matur/frettir/2020/03/24/nokkrir_veitingastada_gledipinna_loka_timabundid/

FoodCo hefur átt rekstur og fasteign á staðnum frá 2017 en þá keypti félagið hann af Mjöll Daníelsdóttur og Guðmundi Viðarssyni. Eigendaskipti hafa verið nokkuð tíð á öldinni. Kaffi­vagn­inn var stofnaður árið 1935 af Bjarna Kristjáns­syni og stóð þá á Ell­ing­sen­plan­inu á horni Póst­hús­stræt­is og Tryggvagötu. Hann var flutt­ur út á Granda í byrj­un sjötta ára­tug­ar­ins sam­kvæmt heimasíðu Kaffi­vagns­ins og hef­ur staðið í nú­ver­andi mynd frá ár­inu 1975.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert