99,15% samþykktu samning Eflingar við SÍS

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Félagsmenn Eflingar sem starfa hjá Kópavogsbæ, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ, Hveragerði og Ölfusi hafa greitt atkvæði um kjarasamning sem undirritaður var 10. maí milli Eflingar og Sambands íslenskra sveitarfélaga.  

Af þeim 118 sem greiddu atkvæði um samninginn sögðu 117 eða 99,15% já. Aðeins einn greiddi atkvæði gegn samningnum eða 0,85%. Allir tóku afstöðu.

Atkvæðagreiðslan var rafræn og stóð frá hádegi mánudaginn 18. maí til hádegis í dag föstudaginn 22. maí.

Í tilkynningu frá Eflingu er haft eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, að hún fagni því og sé stolt af staðfestu félagsmanna Eflingar í verkfallsaðgerðum á erfiðum tímum í tengslum við kjaradeiluna. Segir hún að samstaðan og baráttuvilji hafi skilað „sanngjarnri leiðréttingu og betri kjörum”.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert