Sýknaður af ákæru um 50 milljóna skattsvik

Maður sem var ákærður fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum og peningaþvætti var þann 6. maí sýknaður af ákærunni í Héraðsdómi Reykjaness en honum var gefið að sök að hafa skotið tæpum 50 milljónum undan skatti. Þá greiðir ríkissjóður þóknun verjanda mannsins, tæpar fjórar milljónir króna. 

Manninum var gefið að sök að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum á árunum 2011 til og með 2015 með því að sleppa því að telja fram á skattframtölum sínum tekjur sem námu tæpum 107 milljónum króna. 

Ákæruvaldið krafðist þess að maðurinn yrði dæmdur til refsingar og til að greiða allan sakarkostnað en maðurinn neitaði sök frá upphafi. Hann sagði að það hefði komið „komið algerlega flatt upp á hann, og raunar endurskoðandann líka, þegar skattyfirvöld settu fram athugasemdir við framtölin og töldu að þar væri ekki rétt með farið“.

107 milljónir úr erlendum félögum

Milljónirnar 107 koma úr tveimur félögum, dönsku móðurfélagi og þýsku dótturfélagi, en ákærði sat í stjórn félaganna og átti hlut í þeim. Annað félagið var í hans eigu en nú rekur eiginkona mannsins það ein. 

Rannsókn á skattskilum mannsins hófst árið 2016 en skattrannsóknarstjóri komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði staðið skil á efnislega röngum skattframtölum þar sem greiðslur til mannsins vegna stjórnarlauna fyrir formennsku í stjórnum félaganna tveggja hefðu verið vantaldar og skattleggja ætti launin sem tekjur. 

Skýringar á greiðslunum gangi ekki upp

Maðurinn var aftur á móti ekki sammála því að um stjórnarlaun væri að ræða. Hann sagðist líta svo á, rétt eins félögin sjálf, kröfuhafar á sínum tíma og skiptastjórar síðar, að greiðslurnar væru þóknanir og greiðslur upp í kröfur sem hann hafi átt á hendur félögunum, bæði persónulega og í gegnum einkahlutafélag. 

Að mati dómsins tókst ákæruvaldinu ekki að sanna að maðurinn hefði gerst sekur um það sem honum er gefið að sök. Engin leynd hafi legið yfir greiðslunum en rétt sé þó að skýringar sem maðurinn gaf á þeim greiðslum sem hann fékk frá erlendu félögunum gangi ekki upp „að öllu leyti“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert