Herstjórnir telja framkvæmdir tímabærar

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í ræðustól Alþingis.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í ræðustól Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslensk stjórnvöld hafa ekki hafið formlegar viðræður við bandarísk stjórnvöld eða Atlantshafsbandalagið (NATO) um aðrar framkvæmdir en þær 13 til 14 milljarða framkvæmdir sem standa yfir eða eru í undirbúningi á og við öryggissvæðið við Keflavíkurflugvöll.

Þetta kom fram í máli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra í sérstakri umræðu á Alþingi um varnartengdar framkvæmdir á Suðurnesjum. Málshefjandi var Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins. 

„Þetta er mesta fjárfesting í varnar- og öryggismálum landsins á þessari öld enda er uppsöfnuð þörf fyrir endurbætur og viðhald mjög veruleg,“ sagði Guðlaugur Þór um framkvæmdirnar og bætti við að verkefnin muni skapa yfir 300 ársstörf hér á landi.

Meðal annars fela þau í sér endurnýjun á kerfum íslenska loftvarnakerfisins og uppfærslur á ratsjár- og fjarskiptastöðvum, viðhald flugbrautakerfa, viðgerðir og endurbætur á flugvélastæðum og flugskýlum og byggingu þvottastöðvar.

„Með þessum framkvæmdum er ekki um að ræða neins konar eðlisbreytingu á þeim viðbúnaði sem til staðar er hér á landi eða þeirri starfsemi sem þátttakan í Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin fela í sér,“ sagði Guðlaugur Þór.

Í framhaldinu sagði hann þó ljóst að mörgum mannvirkjum á öryggissvæðinu hafi ekki verið haldið við í áratugi. Ef þau eigi að nýtast liði bandalagsríkja sem kemur reglulega hingað til lands eða á hættutímum þurfi að ráðast í viðgerðir. Mat þeirra herstjórna sem bera ábyrgð á vörnum landsins er að slíkar framkvæmdir séu tímabærar.

Logi Einarsson.
Logi Einarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Krossferð einstakra þingmanna“

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði málið í tengslum við uppbyggingu fyrir NATO í Helguvíkurhöfn líta „beinlínis út sem krossferð einstakra þingmanna Sjálfstæðisflokksins í þessu kjördæmi sem virðast vera að nota sér hörmulegar efnahagsaðstæður svæðisins í kjölfar Covid til að slá sig til riddara“.

Hann spurði hvort ekki væri heppilegra að ráðherra rói þingmennina niður „svo að gasprið í þeim leiði ekki til óraunhæfra væntinga fólks sem býr við mikla erfiðleika á þessu svæði og þarf á inngripi að halda en með raunhæfum hætti“.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Varnar- og öryggisstefnan orðin óljósari 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði að ekki eigi að blanda saman efnahagslegum hagsmunum og öryggishagsmunum. Bætti hún við að ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum hafi tekist að gera varnar- og öryggisstefnu Íslendinga óljósa. „Hún er valtari á fótunum en áður,“ sagði hún og bætti við að enginn sómi væri að því að senda út tvíræð skilaboð til Suðurnesjamanna.

Guðmundur Ingi Kristinsson.
Guðmundur Ingi Kristinsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fáránlegt að láta mannvirki drabbast niður

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, sagði ákveðinn tvískinnung vera í gangi. Annaðhvort væri Ísland í NATO eða ekki og að fáránlegt væri að láta mannvirki drabbast niður. Hann sagði Ísland eiga að samþykkja alla uppbyggingu í Helguvík og sýna þeim sem eru með okkur í bandalaginu þá virðingu að vera ekki bara með og gera ekkert í staðinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert