„Hvert er planið?“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, spurði forsætisráðherra út í aðgerðaætlun vegna fyrirhugaðrar opnunar landamæra 15. júní í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.

„Hvert er planið?“ spurði Þorgerður Katrín.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fór yfir aðgerðir hér á landi og sagði að ekki hefði verið gripið til jafn „drastískra“ ráðstafana hér á landi vegna kórónuveirufaraldursins og víða annars staðar. Áhersla hefði verið lögð á strangar sóttvarnaaðgerðir.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Forsætisráðherra sagði enn fremur að áhættugreining Landspítala vegna opnunar landamæra 15. júní lægi fyrir.

„Heilbrigðisráðherra á von á niðurstöðum vinnuhóps síðar í dag um hvernig hægt verður að standa að skimun á Keflavíkurflugvelli frá og með 15. júní. Hagræn greining á mögulegri áhættu af þessari opnun mun ekki liggja fyrir fyrr en 1. júní,“ sagði Katrín.

Hún hyggst upplýsa formenn flokka um vinnuna á morgun.

Forsætisráðherra sagði vandasamt að opna landamæri þegar kórónuveiran er enn á ferð og herjar á ýmis lönd. Við verðum því ekki 100% örugg fyrr en bóluefni er komið.

Skrefið sem tekið er verður því eins varfærið og mögulegt er; með skimun og sóttkví, kom fram í máli Katrínar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert