Dagdvölin Röst við Sléttuveg vígð í dag

Dagdvöl hjúkrunarheimilisins við Sléttuveg verður vígð í dag.
Dagdvöl hjúkrunarheimilisins við Sléttuveg verður vígð í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, vígir formlega nýja dagdvöl hjúkrunarheimilis Hrafnistu við Sléttuveg í Fossvogi klukkan 13 í dag. Dagdvölin hefur fengið nafnið Röst og rúmar 30 manns á degi hverjum.

Hlutverk Rastar er að gera einstaklingum, 60 ára eða eldri, kleift að búa lengur á eigin vegum með því að bjóða þeim að sækja þangað þjónustu sem hefur það að meginmarkmiði að auka lífsgæði með því að viðhalda og efla færni þeirra til sjálfsbjargar auk þess að koma í veg fyrir félagslega einangrun.

Starfsemin hófst fyrr í þessum mánuði og þar geta gestir nýtt sér aðstöðu í matsal þjónustumiðstöðvar Sléttunnar auk félagsstarfs með þeim viðburðum sem þar fara reglulega fram. Dagdvalargestir hafa einnig aðgang að annarri þjónustu á Sléttuvegi svo sem hárgreiðslustofu, fótaaðgerðastofu og líkamsræktarstöð sem opnar síðar í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert