CarbFix vinnur til alþjóðlegra verðlauna

Hjá CarbFix er koltvíoxíðið skilið frá gufunni í útblæstrinum, því …
Hjá CarbFix er koltvíoxíðið skilið frá gufunni í útblæstrinum, því blandað saman við vatn og vatninu síðan veitt niður um borholur. Koltvíoxíðið binst basaltberginu á um eins kílómetra dýpi. mbl.is/RAX

Íslenska verkefnið CarbFix hefur unnið til Ruggero Bertani, nýsköpunarverðlauna Evrópska jarðhitaráðsins, en tilkynnt var um þetta á rafrænni verðlaunaafhendingu á vegum ráðsins á miðvikudag. 

Verðlaunin eru veitt fyrirtækjum fyrir einstakt framlag sitt til jarðhitanýtingar, hvort sem um er að ræða vöruframboð, vísindarannsókn eða frumkvöðlaverkefni.

CarbFix er verkefni á vegum Orkuveitu Reykjavíkur sem felst í að lækka varanlegan styrk koltvíoxíðs í andrúmslofti með því að binda það sem grjót í berglögum. 

Það er gert við Hellisheiðarvirkjun, en þar er koltvísýringur 0,42% útblásturs. Koltvíoxíðið er skilið frá gufunni í útblæstrinum, því blandað saman við vatn – svipað og þegar sódavatn er gert – og vatninu síðan veitt niður um borholur. Koltvíoxíðið binst basaltberginu á um eins kílómetra dýpi.

Verðlaunin endurspegla áhugann á verkefninu

„Við erum stolt og þakklát fyrir að hafa hlotið þessa viðurkenningu. Verðlaunin endurspegla áhugann sem er á verkefninu, sem og trúna á að hægt sé að beita Carbfix-aðferðinni til að draga úr gróðurhúsalofttegundum í andrúmsloftinu og þannig gegnt mikilvægu hlutverki í baráttunni gegn loftslagsvánni,“ segir Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra CarbFix, í tilkynningu.

CarbFix er samstarfsverkefni Orkuveitu Reykjavíkur og Háskóla Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert