Hagnaður hjá Ölfusi

Sveitarfélagið Ölfus.
Sveitarfélagið Ölfus. mbl.is/Árni Sæberg

Niðurstaða ársreiknings sveitarfélagsins Ölfus fyrir árið 2019 sýnir jákvæða rekstrarniðurstöðu A- og B-hluta um 300,3 milljónir króna. Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta vegna ársins 2018 var á sama hátt jákvæð um 242,8 milljónir króna.

Samkvæmt efnahagsreikningi nema heildareignir A- og B-hluta um 5.217 milljónum króna. Bókfært eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2019 nam 2.964 milljónum króna og er eiginfjárhlutfall sveitarfélagsins 56,8 %, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Þar kemur fram að skattatekjur án framlaga úr jöfnunarsjóði hækka úr 1,4 milljörðum árið 2018 í 1,6 milljarða árið 2019. Skatttekjur hafa hækkað um 16% frá árinu 2017 en þær eru skýrðar með auknum íbúafjölda í sveitarfélaginu.

Íbúum fjölgaði um 5,5% á árinu 2019 og hefur þeim þar með fjölgað um 13,3% á fjórum árum. Talið er að íbúum haldi áfram að fjölga í sveitarfélaginu.

Skuldaviðmið Sveitarfélagsins Ölfuss 31. desember 2019 var 57,00% en var 69,71% í árslok 2018. Skuldir á hvern íbúa af samstæðu A og B hluta lækka um 62 þúsund á árinu eða úr 848 þúsund niður í 786 þúsund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert