Ekki byrjað að sekta á Laugavegi

Göngugata að nafninu til, bílagata í raun.
Göngugata að nafninu til, bílagata í raun. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Varla er þverfótað á göngugötunni Laugavegi fyrir einkabílum sem virða ekki akstursbannið. Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að byrjað verði að sekta á næstu dögum fyrir umferðarlagabrotið. „Við erum með annað augað á þessu,“ segir Árni.

Laugavegur er göngugata neðan Frakkastígs og nær hún allt niður að Lækjargötu. Einungis hreyfihömluðum ökumönnum, með staðfestingu þess efnis, sem og neyðarbílum er heimilt að aka á göngugötu en að öðru leyti liggur við því 20.000 króna sekt samkvæmt umferðarlögum. Að sögn Árna hefur þó enginn enn verið sektaður fyrir að keyra á göngugötunni, hvorki í ár né í fyrra.

Hefur lögregla á samfélagsmiðlum legið undir ámæli fyrir meint skeytingarleysi gagnvart umferðarlagabrotum í göngugötunni. Því vísar Árni á bug. „Okkar hlutverk er bara að framfylgja umferðarlögum og við munum sekta þarna,“ segir Árni. Vakin verði athygli á því strax eftir helgi.

Á meðfylgjandi mynd, sem deilt var á samfélagsmiðlinum Twitter, má sjá lögregluþjón sem keyrir Laugaveginn og aðhefst ekki þótt í humátt á eftir fylgi einkabíll. Ekki er þó loku fyrir það skotið að ökumaður sé hreyfihamlaður og því í fullum rétti til að aka niður götuna.

Árni segist ekki hafa séð umrædda mynd, en ítrekar að engar sektir hafi verið lagðar á vegna ólöglegs aksturs í göngugötunni enn sem komið er. „Ökumenn virðast vera vanir því að keyra niður Laugaveginn,“ segir Árni. Þannig hafi meirihluti ökumanna sem stoppaðir voru í fyrra við akstur á götunni sagst ekki vita af því að gatan væri göngugata. Spurður hvort ökumenn séu ekki almennt með afsakanir á reiðum höndum þegar þeir eru stoppaðir, játar Árni það þó.

Sá munur er á sumrinu í ár og því síðasta, að í fyrra var götunni lokað með sérstökum hliðum. Með breytingum á umferðarlögum, sem tóku gildi um áramót, er hreyfihömluðum hins vegar heimilt að keyra göngugötur og því hefur borgin neyðst til að grípa til þess ráðs að taka niður hliðin svo hreyfihamlaðir geti komist um. Ýmsir aðrir en hreyfihamlaðir virðast þó hafa sætt lagi, en þeir sem hafa sótt miðbæinn heim síðustu daga hafa vart farið varhluta af því að nokkur umferð er um göngugötuna. Þannig skeyttu leigubílstjórar til að mynda lítt um akstursbannið um helgina.

Uppfært 16:21

Í fyrirsögn var upphaflega haft eftir lögreglu að til skoðunar væri að byrja að sekta. Frétt og fyrirsögn hafa nú verið uppfærð í samræmi við nýjar upplýsingar frá lögreglu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert