Rannsókn á andláti heldur áfram á morgun

Rannsókn á andláti við Laxá og dráttarvélarslysi í Hrísey heldur …
Rannsókn á andláti við Laxá og dráttarvélarslysi í Hrísey heldur áfram á morgun. mbl.is/Eggert

Rannsókn á andláti karlmanns, sem fannst látinn í Laxá í Aðaldal í nótt, verður fram haldið á morgun, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Norðurlandi eystra. Maðurinn fannst látinn um klukkan þrjú í nótt, en hans hafði þá verið saknað frá því um klukkan tíu um kvöldið, eftir að hann skilaði sér ekki heim að veiði lokinni. Dánarorsök er ókunn.

Sömu sögu er að segja af rannsókn á tildrögum dráttarvélarslyss, sem varð í Hrísey í gær. Tilkynnt var um slysið um hádegisbil í gær. Ökumaður dráttarvélainnar ók á trjádrumb á veginum með þeim afleiðingum að hann féll af dráttarvélinni og lenti undir henni. Var hann ferjaður í land og fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahúsið á Akureyri. Engar upplýsingar fást um líðan mannsins, en í tilkynningu frá lögreglu í gær kom fram að „meiðslin gætu verið meiri háttar“.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Akureyri er rannsóknardeild ekki að störfum í dag enda helgidagur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert