Á botni laugarinnar í sjö mínútur

Sundhöll Selfoss.
Sundhöll Selfoss. mbl.is/Sigurður Bogi

Eldri karlmaður sem lést við sundiðkun í Sundhöllinni á Selfossi í gær var á botni laugarinnar í sjö mínútur áður en eftir því var tekið.

Tíu ára gamlir sundlaugargestir urðu varir við manninn á botni innilaugarinnar fyrir hádegi í gær. Sjúkraflutningamenn og lögregla voru kölluð á vettvang en endurlífgunartilraunir báru ekki árangur. 

Rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi rannsakar aðdraganda atvikins en krufning á eftir að fara fram. Lögregla hefur rætt við starfsfólk, farið yfir myndbandsupptökur og bíður niðurstöðu krufningar. 

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 sagði Bragi Bjarnason, deildarstjóri frístunda- og menningardeildar Árborgar, að allt væri gert til að komast að því hvers vegna fór sem fór. Fimm sundlaugarverðir séu til taks hverju sinni, sem skipti um svæði á hálftíma fresti. Slysið hafi gerst í kringum vaktaskipti og verið sé að skoða hvort að það hafi haft áhrif.

Börnum sem urðu vitni að atvikinu var boðin áfallahjálp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert