Endurreisnin þurfi að vera græn

Pawel Bartoszek og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.
Pawel Bartoszek og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Borgarstjórn samþykkti í dag Græna planið, áætlun Reykjavíkurborgar um græn skref fyrir efnahagslega viðspyrnu og endurreisn eftir efnahagsáfall af völdum faraldurs kórónuveirunnar.

Í tilkynningu frá borgarstjórnarflokki Viðreisnar segir að planið dragi saman meginlínur Reykjavíkur í fjárfestingum, fjármálum og verkefnum næstu fimm til tíu ára. Fjárhagsáætlanir borgarinnar muni því taka mið af þessu planinu.

„Við, borgarfulltrúar Viðreisnar, teljum að endurreisnin þurfi að vera græn. Við viljum skilja við okkur betri borg, hvort sem litið er til lífsgæða, loftgæða og loftslags eða til fjármála og reksturs. Markmiðið á að vera sjálfbærni, þar sem vandamálum er ekki ýtt áfram til komandi kynslóða, heldur sé það á okkar ábyrgð að bregðast við þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir,” er haft eftir Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, oddvita Viðreisnar.

Bættar samgöngur og uppbygging Borgarlínu

Tekið er fram að í planinu svokallaða séu mikilvæg skref til að bæta lífsgæði, loftgæði og loftslag.

„Þar má nefna bættar samgöngur og uppbyggingu Borgarlínu, bætta innviði fyrir hjól og áherslu á orkuskipti, græna uppbyggingu húsnæðis og umhverfisvæns borgarlands.

Það er einnig mikilvægt að halda áfram í ábyrgum og grænum fjárfestingum, t.d. í gegnum græn skuldabréf og með því að láta grænar skuldbindingar vera leiðarljós sjálfbærra verkefna og nýsköpunar. Það þarf einnig að hefja samtal við atvinnulífið, ekki síst ferðaþjónustuna um hvernig við getum staðið saman í því að byggja upp borgina okkar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert