„Þögn er þátttaka“

Derek T. Allen vonar að umræðan um rasisma á Íslandi …
Derek T. Allen vonar að umræðan um rasisma á Íslandi haldi áfram. mbl.is/Ragnhildur

Derek T. Allen, Bandaríkjamaður sem hefur búið á Íslandi í þónokkur ár, vonar að umræðan sem sprottið hefur upp vegna andláts George Floyd, Bandaríkjamanns sem var drepinn af lögreglumanni nýverið, verði til þess að ábendingar um rasisma á Íslandi verði teknar alvarlega og samfélagið breytist. 

„Mig langar bara að sjá breytingar,“ sagði Derek í samtali við mbl.is. 

Hann hélt ræðu á samstöðufundi á Austurvelli fyrr í dag sem snerti við þeim sem á hana hlýddu. Þar sagði Derek til að mynda að Íslendingar ættu ekki að sitja hljóðir hjá á meðan svörtum væri enn mismunað. 

„Í rödd ykkar býr máttur. Takið afstöðu því þögn er þátttaka,“ sagði Derek. 

Spurður hvaða breytingar hann vildi sjá á Íslandi sagði Derek:

„Ég vona að við tökum umræðuna um rasisma alvarlegar og mark verði tekið á kvörtunum svarts fólks og fólks sem er ekki hvítt. “

Gott að sjá samstöðuna

Derek sagði að það skipti hann miklu máli að tala um lögregluofbeldið í Bandaríkjunum.

„Það er svo mikið í gangi í Bandaríkjunum og mig hálflangar að vera þar. Það er svo gott að sjá hvað er að gerast þar varðandi samstöðuna og allt það.“

Derek talaði mikið um orðalagið „black lives matter“ eða „svört líf skipta máli“ í ræðu sinni og sagði öll líf skipta máli. 

„En ég skil ekki alveg hvers vegna öll líf skipta máli þegar svart fólk er elt eins og bráð en ekki þegar farið er illa með fólk og því vísað úr landi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert