Metið hagkvæmara að láta ferðamenn borga

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gagnrýni ferðaþjónustufyrirtækja á fyrirhugaða gjaldtöku fyrir sýnatöku ferðamanna á Keflavíkurflugvelli kemur Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra ekki á óvart. „Það eru auðvitað skiptar skoðanir um hvert skref sem við tökum og við þurfum að vera viðbúin gagnrýni,“ segir Svandís. Ákvörðun um gjaldtöku sé tekin að vel yfirlögðu ráði og ekki tilefni til að endurskoða ákvörðunina.

Greint var frá því í gær að ferðamenn sem kæmu hingað til lands frá og með 1. júlí þyrftu að greiða 15.000 krónur fyrir skimun vegna COVID-19 en að öðrum kosti sæta 14 daga sóttkví. Hefur sú ákvörðun eins og gefur að skilja fallið í grýttan jarðveg hjá ferðaþjónustunni, en Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, sagði afbókanir þegar vera byrjaðar að streyma inn þegar mbl.is náði tali af honum nokkrum klukkustundum eftir að tilkynnt var um gjaldtökuna.

Sérstakur hópur á vegum forsætis- og fjármálaráðuneytisins sá um hagræna greiningu á kostnaði við útfærsluna og var það mat hópsins að hagkvæmara væri að láta ferðamenn standa straum af kostnaði við sýnatökuna, að teknu tilliti til áhrifa þess á fjölda ferðamanna, segir Svandís.

Ákvörðun um gjaldtökuna er í höndum heilbrigðisráðherra, samkvæmt heimild í sóttvarnalögum líkt og Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, nefndi í samtali við mbl.is fyrr í dag. Aðspurð segir Svandís þó að ekki séu skiptar skoðanir um málið innan ríkisstjórnarinnar. „Ég lagði þetta fram á ríkisstjórnarfundi á föstudag enda mikilvægt að einhugur sé um þetta verkefni eins og önnur sem ráðist hefur verið í vegna veirunnar,“ segir Svandís.

 Ekkert hefur verið gefið út um hve lengi reglur um sýnatöku munu gilda, en Svandís segir ótímabært að fullyrða um það að svo stöddu. Það verði einfaldlega að koma í ljós þegar fram líða stundir. 

Nágrannaríki Íslands kynna nú hvert á eftir öðru áætlanir um opnun landamæra, en skimun við komuna til landsins virðist ekki eiga upp á pallborðið þar. Spurð hvort það stafi einfaldlega af því að löndin eru ekki eyjur, og eigi því ekki jafnauðvelt með að kortleggja alla sem koma yfir landamærin, segir Svandís það geta spilað inn í. „Hvert einasta ríki er einstakt í þessum efnum. Íbúasamsetning, aldurssamsetning og landfræðileg skilyrði spila saman,“ segir hún og bætir við að fylgst sé grannt með gangi mála í nágrannalöndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert