Keppnisþyrstir í kjölfar kórónuveiru

Keppnin byrjar og endar við skrifstofur Morgunblaðsins og mbl.is. Að …
Keppnin byrjar og endar við skrifstofur Morgunblaðsins og mbl.is. Að henni lokinni er boðið upp á veitingar. mbl.is/Árni Sæberg

Keppendur í Morgunblaðshringnum mæta keppnisþyrstari til leiks á mánudaginn en áður eftir mikla þurrð í mótum vegna kórónuveirunnar.

Um er að ræða fyrsta bikarmót sumarsins í fjallahjólreiðum en mótið fer venjulega fram í lok apríl. „Keppnin er aðeins seinna í ár út af svolitlu sem skeði,“ segir Bjarki Bjarnason, þjálfari hjá Hjólreiðafélagi Reykjavíkur sem lagði brautina sem hjóluð verður, kíminn.

Skráningu lýkur á miðnætti á morgun en keppnin hefst klukkan sex síðdegis á mánudag. Um er að ræða sjö kílómetra hring á svæðinu við Rauðavatn, Hádegishæð og Paradísardal rétt eins og í fyrra.

Keppendur hjóla einn til fjóra hringi eftir því í hvaða keppnisflokki þeir eru. „Það sem er erfiðast við brautina er að þú færð í raun aldrei hvíld í henni. Hún er ekki tæknilega krefjandi en menn eru í botni allan tímann. Þú þarft að halda svolítið vel á spöðunum því annars verður þú bara eftir,“ segir Bjarki.

Á fimmta tug keppenda eru skráðir til leiks en reynsla mótshaldara er sú að flestir skrái sig á síðasta degi fyrir mótið.

Spurður um líklega sigurvegara nefnir Bjarki í karlaflokki Ingvar Ómarsson og Hafstein Ægi Geirsson. Hvað kvennaflokk varðar nefndir Bjarki Maríu Ögn Guðmundsdóttur og Karen Axelsdóttur, ríkjandi bikarmeistara. „Kristín Edda Sveinsdóttir gæti líka veitt þeim mjög mikla samkeppni,“ segir Bjarki. Spurður hvaða áhrif það hafi á hjólreiðafólk að tímabilinu hafi seinkað jafn mikið og raun ber vitni segir Bjarki: „Ég held að flestir séu að koma sterkari og keppnisþyrstari inn en þeir hefðu gert annars.“ ragnhildur@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert