„Skipulögð glæpastarfsemi“: Annars hóps leitað

Fimm til sex manna hóps erlendra einstaklinga er nú leitað, …
Fimm til sex manna hóps erlendra einstaklinga er nú leitað, sem talinn er tengjast rúmensku fólki í haldi lögreglu. Hópurinn er talinn hafa komið til landsins viku áður en þeir sem þegar hafa verið handteknir. mbl.is/Eggert

„Þetta er angi af skipulagðri glæpastarfsemi, það er í raun ekki hægt að orða það öðruvísi,“ segir Rögnvaldur Ólafsson, lögreglufulltrúi og verkefnastjóri hjá almannavörnum, við mbl.is. Hann telur komu sex rúmenskra einstaklinga til landsins í síðustu viku fylgja mynstri sem hefur endurtekið sig síðustu ár hér á landi, þar sem erlendir hópar leita hingað til þess að stunda innbrot og þjófnað.

Rögnvaldur Ólafsson verkefnastjóri hjá almannavörnum.
Rögnvaldur Ólafsson verkefnastjóri hjá almannavörnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Til viðbótar við þessa sex er nú annars hóps Rúmena leitað, sem talinn er hafa komið til landsins í síðustu viku. Þar er um 5-6 einstaklinga að ræða, jafnt karla sem konur, sem talið er að tengist hópnum sem er í haldi. Lögregla reynir nú að hafa uppi á þessum hópi, sem Rögnvaldur segir að sé gert í þeim tilgangi að tryggja að reglum um sóttkví sé fylgt en einnig til þess að rannsaka hvort þau hafi verið að „gera eitthvað annað sem þau hafi ekki átt að vera að gera“.

Samtals eru þetta því 10-12 einstaklingar sem lögreglan rannsakar, bæði konur og karlar, og þess er þá að geta að í fyrsta hópnum sem var handtekinn var ein kona. Rögnvaldur segir upplýsingar liggja fyrir um hvaða fólk þetta er en takist ekki að hafa uppi á því, verði lýst eftir því eins og gert hefur verið.

Kórónuveiran dragi mynstur fram í dagsljósið

Eins og fyrr segir, segir Rögnvaldur að grunur leiki á um að þessir hópar tengist skipulagðri glæpastarfsemi. Kórónuveirusmit á meðal fólksins dragi málið fram í dagsljósið, en að það sé að öðru leyti hefðbundið sem slíkt. „Þetta dregur upp á yfirborðið ástand sem hefur verið með svona hópa um nokkurt skeið. Þarna er þetta nokkur stór hópur sem segist ekki tengjast á meðan við höfum vísbendingar um annað,“ segir Rögnvaldur.

Karlmennirnir tveir sem fundust á hóteli á höfuðborgarsvæðinu í gær hafa að sögn Rögnvaldar haldið því fram að þeir þekki ekki hina þrjá, sem voru handteknir vegna þjófnaðar á Selfossi og tveir þeirra reyndust smitaðir. Rögnvaldur segir ástæðu til þess að efast um þær fullyrðingar en talið er að mennirnir sex hafi verið samferða til landsins og er þar byggt á sætaráðstöfunum þeirra í flugvélinni og síðan hegðun á flugvellinum.

Óvenjulegt varðhald

Þessa stundina stendur til að fara með hina smituðu í skoðun á Landspítalanum og að því loknu til dvalar í farsóttarhúsinu við Rauðarárstíg. Þangað stendur einnig til að flytja þá sem fundust í gær, en hafa reynst covid-lausir. Rögnvaldur segir að það sé gert til þess að tryggja að þeir fari í sóttkví eftir reglum sem þeir hafa áður brotið. Á sama tíma er verið að inna þá eftir frekari skýringum á ferðum þeirra og á tengslum við þá sem sannanlega voru staðnir að þjófnaði.

Lögreglan leitar enn að Pioaru Alexandru Inonut.
Lögreglan leitar enn að Pioaru Alexandru Inonut. Ljósmynd/Lögreglan

Grundvöllurinn fyrir því að hafa menn í haldi sem hafa verið greindir covid-lausir er óljós. Rögnvaldur segir þó að í smitrakningarferlinu sé brýnt að þeir sem hafi verið berskjaldaðir með eins skýrum hætti fyrir kórónuveirusmiti fari í sóttkví, óháð því hvort eitt eða annað sýni reynist neikvætt. Þeir verði prófaðir áfram í framhaldinu, einkum ef þeir fara að sýna einkenni. 

Ástandið er því eins konar blanda af varðhaldi og sóttkví og gert að einhverju marki að beiðni sóttvarnalæknis, sem einnig er óvenjulegt. Lögreglan virðist samkvæmt þessu hafa aukið svigrúm í nafni sóttvarna til þess að handtaka fólk og lýsa eftir því.

Uppfært kl. 17.18:

Lögreglan er búin að finna Rúmenann sem leitað hefur verið að.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert