Vatnajökull sigraður

Snjódrífurnar hafa staðið sig eins og hetjur.
Snjódrífurnar hafa staðið sig eins og hetjur. Ljósmynd/Aðsend

Útivistarhópurinn Snjódrífurnar er kominn niður af Vatnajökli. Lýkur þar með átta daga leiðangri ellefu kvenna, en þær hafa nú lagt að baki um 150 kílómetra leið yfir jökulinn þveran síðustu átta daga.

„Þetta hefur gengið eins og í ævintýri,“ segir Brynhildur Ólafsdóttir, ein Snjódrífanna, en þegar blaðamaður mbl.is slær á þráðinn eru þær komnar niður af jökli en þó ekki til byggða. Planið er að verja nóttinni í skála við Geldingafell.

Gott veður er við jökulinn og hefur verið síðustu daga, bongóblíða og ekki ský á himni. „Við erum bara búnar að gleyma hvernig vont veður er,“ segir Brynhildur en viðurkennir að vísu að það hafi rignt á degi tvö. Einn rigningardagur er þó sennilega ásættanleg fórn fyrir veðurblíðuna sem nú ríkir.

Daginn sem veðrið var vont.
Daginn sem veðrið var vont. Ljósmynd/Aðsend

Snjódríf­urn­ar standa að baki átaks­verk­efn­inu Lífs­krafti, en mark­miðið með Lífs­krafti er að safna áheit­um fyr­ir fé­lög­in Kraft, fé­lag ungs fólks með krabba­mein, og Líf, styrkt­ar­fé­lag kvenna­deild­ar Land­spít­al­ans. Sirrý Ágústs­dótt­ir er upp­hafs­mann­eskja átaks­ins, en hún greind­ist með leg­hálskrabba­mein árið 2010 og aft­ur 2015. Í síðara skiptið var ljóst að krabba­meinið væri krón­ískt og töldu lækn­ar að hún ætti þá eitt til þrjú ár eft­ir ólifað. Nú eru fimm ár síðan og Sirrý fékk vin­kon­urn­ar í Snjódríf­um til að fagna líf­inu og þess­um tíma­mót­um með sér.

Hælsæri, niðurgangur og náttúrufegurð

Aðspurð segir Brynhildur að reynsla kvennanna ellefu af fjallaferðum og gönguskíðum sé æði misjöfn. Sumar hafi mikla reynslu en aðrar hafi haft litla sem enga þar til í fyrra er þær hófu undirbúning fyrir ferðalagið. Góður undirbúningur og samheldni hafi orðið til þess að misjöfn reynsla komi ekki að sök. „Hér er bæði mikið stuð og rosaleg samkennd,“ segir Brynhildur. Varla sé til sá fótur sem er heill í ferðinni. Opin hælsæri, brunasár og slitin hné séu alltumlykjandi, en þær hlúi hver að annarri.

Brynhildur Ólafsdóttir.
Brynhildur Ólafsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Spurð hvað stendur upp úr í ferðinni segir Brynhildur það vera félagsskapinn og náttúrufegurðina. „Það var töfrum líkast þegar við vorum uppi á Grímsfjalli í kvöldsólinni og 10-15 stiga hita með Öræfajökul á aðra hönd, Bárðarbungu á hina og Grímsvötnin fyrir neðan okkur,“ segir Brynhildur. Þær hafi fengið allt það útsýni sem þær hefðu getað óskað sér. „Þá var algjör geðshræring að renna niður Blöndujökul með Snæfell á hægri hönd, músík á fullu og tár á hvarmi,“ segir Brynhildur.

Hægt er að styðja við Lífs­kraft með því að leggja inn á reikn­ing 1161-26-9900, kt. 501219-0290, eða með Aur-app­inu í síma 789-4010.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert