Breytingar á eignarhaldi gerðar tortryggilegar

Í tilkynningu Samherja segir jafnframt að eins og áður hafi …
Í tilkynningu Samherja segir jafnframt að eins og áður hafi komið fram hafi undirbúningur að breytingum á eignarhaldi Samherja staðið yfir síðastliðin tvö ár.

Samherji hf. segir það ómaklegt að gefið hafi verið í skyn að breytingar á eignarhaldi fyrirtækisins tengist umfjöllun Ríkisútvarpsins frá 12. nóvember þar sem fjallað var um starfsemi Samherja í Namibíu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samherja vegna umfjöllunar Kjarnans um bréf Samherja til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins 4. nóvember 2019 þar sem tilkynnt var um fjárfestingu Baldvins Þorsteinssonar í Samherja, en hann er búsettur og hefur lögheimili í Hollandi og telst því vera erlendur aðili í skilningi laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, sem tilkynna ber ráðuneytinu.

„Vefmiðillinn Kjarninn fjallaði í dag um þetta bréf til ráðuneytisins undir fyrirsögninni Tilkynnt um erlenda fjárfestingu í Samherja nokkrum dögum fyrir Kveiksþáttinn. Gerði Ríkisútvarpið sér svo mat úr þessari sömu umfjöllun í hádegisfréttum. Var framsetning beggja miðla með þeim hætti að tilgangurinn var augljóslega sá að gera breytingar á eignarhaldi Samherja hf. tortryggilegar með því að gefa í skyn að þær tengdust fjölmiðlaumfjöllun um starfsemina í Namibíu.“

Í tilkynningu Samherja segir jafnframt að eins og áður hafi komið fram hafi undirbúningur að breytingum á eignarhaldi Samherja staðið yfir síðastliðin tvö ár og hafi verið formlega kynnt stjórn félagsins um mitt ár 2019 og kaupsamningur, sem háður var ýmsum fyrirvörum, undirritaður í ágúst sama ár. 

„Samherji hf. fékk fyrst vitneskju um efnislegt inntak fyrirhugaðrar umfjöllunar Ríkisútvarpsins með bréfi hinn 25. október 2019. Það er því augljóst að þessir tveir atburðir eru algjörlega ótengdir.“

„Að öllu þessu virtu er það býsna ómaklegt af vefritinu Kjarnanum að gefa í skyn að áðurnefnd tilkynning til atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins tengist umfjöllun Ríkisútvarpsins frá 12. nóvember síðastliðnum. Þá ber að halda því til haga að starfsemi Samherja í Namibíu var í félögum undir Samherji Holding ehf. en engin breyting hefur orðið á eignarhaldi þess félags.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert