Slæm skilaboð felist í að loka Vogi að sumri

Styr hefur staðið um starfsemi sjúkrahússins Vogs um nokkurt skeið.
Styr hefur staðið um starfsemi sjúkrahússins Vogs um nokkurt skeið. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Hagræðingartillögur yfirlæknis á Vogi sem snúa meðal annars að því að loka sjúkrahúsinu í átta vikur að sumri og að breyta opnunartíma á meðferðarheimilinu Vík í fimm daga á viku, í stað sjö, hugnast ekki tveimur stjórnarmönnum í framkvæmdastjórn SÁÁ.

Töluverðar deilur sköpuðust um uppsagnir á sjúkrahúsinu Vogi fyrr á þessu ári, en þar var þremur sálfræðingum af sex á sjúkrahúsinu sagt upp störfum. Lagðist Valgerður Á. Rúnarsdóttir yfirlæknir gegn uppsögnunum og fékk sínu framgengt. Leita þurfti þá annarra leiða til að hagræða enda er uppsöfnuð framúrkeyrsla sjúkrahússins síðustu tvö ár um 200 milljónir, að því er fram kemur í bréfi Arnþórs Jónssonar, formanns SÁÁ til framkvæmdastjórnar, og ekki hefur kórónuveirufaraldurinn bætt úr skák.

Erla Björg Sigurðardóttir félagsráðgjafi og Olga Kristrún Ingólfsdóttir, viðskiptafræðingur MBA, eru stjórnarmenn í framkvæmdastjórn SÁÁ. Þær segja að upphaflegum tillögum um uppsagnir sálfræðinga á sjúkrahúsinu hafi verið ætlað að koma sem minnst niður á sjúklingum. „Við vildum alls ekki að niðurskurður myndi bitna á þjónustunni,“ segir Olga.

Valgerður Á. Rúnarsdóttir forstjóri og yfirlæknir sjúkrahússins Vogs.
Valgerður Á. Rúnarsdóttir forstjóri og yfirlæknir sjúkrahússins Vogs. mbl.is/Árni Sæberg

Sem fyrr segir voru uppsagnir sálfræðinganna afturkallaðar eftir mótmæli starfsmanna á Vogi, þeirra á meðal Valgerða yfirlæknis. Þá hafi Valgerður lagt fram umræddar hugmyndir um tímabundna lokun sjúkrahússins og breytingu á Vík, en það er meðferðarúrræði sem tekur við er afeitrun á Vogi er lokið.

Hefði slæm áhrif á meðferðina

„Þetta myndi hafa svakalega slæm áhrif á meðferðina,“ segir Olga og spyr hvaða skilaboð SÁÁ væri að senda til þjóðfélagsins með því að leggja af lífsnauðsynlega meðferð hluta úr ári þegar sjúkrahúsið annar nú þegar ekki eftirspurn. 

Undir þetta tekur Erla Björg. „Ég stend enn við þessa ákvörðun [sem snúið var við]. Það sem við viljum er að leggja áherslu á þjónustu fyrir alkóhólista. Við vildum verja það að fólk kæmist inn til okkar, og þá voru uppsagnir óhjákvæmilegar,“ segir hún. 

„Eins og þetta er núna þá hefur Valgerður þurft að segja upp fólki sem er orðið sjötugt og sett fram ákveðnar sparnaðaraðgerðir sem hugnast okkur ekki.“

Hún segir þau sem standa saman innan framkvæmdastjórnarinnar ekki ætla að láta SÁÁ „rúlla óbreytt“. Tímabundið þufi að minnka sálfræðiþjónustu til að geta haldið í ráðgjafa sem halda meðferðinni uppi. 

„Ef við hefðum ekki þessa ráðgjafa þá hefðum við ekki þessa meðferð.“

Vilja fækka millistjórnendum og verja þjónustuna

Í fyrrnefndu bréfi Arnþórs, formanns SÁÁ, til stjórnar samtakanna eru upphaflegar tillögur um uppsögn sálfræðinga sömuleiðis varðar.

„Upphaflegu aðgerðirnar til sparnaðar gerðu ráð fyrir fækkun „millistjórnenda“, þeirra sem ekki vinna sjúklingavinnu, svo komist yrði hjá því að draga úr þjónustu við sjúklinga og vegna skilyrða í þjónustusamningum. Þeim aðgerðum var snúið við í miklum fjölmiðlahasar og þjónustan við sjúklingana skert í staðinn,“ segir í bréfinu.

Aðalfundur SÁÁ fer fram 30. júní. Arnþór Jónsson gefur ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku, en tveir verða í framboði, Einar Hermannsson stjórnarmaður og Þórarinn Tyrfingsson sem gegndi stöðu yfirlæknis og formanns samtakanna um árabil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert