„Snýst um að einstaklingar haldi reisn sinni“

Minnisvarði um manninn sem féll frá.
Minnisvarði um manninn sem féll frá. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Afmennskuvæðing einstaklinga með vímuefnavanda í fjölmiðlum er til þess fallin að draga úr samkennd og auka skilningsleysi á aðstæðum jaðarhópa. Þetta segir Elísabet Brynjarsdóttir, hjúkrunarfræðingur Frú Ragnheiðar. 

Í fréttum Stöðvar 2 í síðustu viku var fjallað um einstakling með vímuefnavanda sem fannst látinn í Hlíðahverfi. Fréttaflutningurinn hefur verið gagnrýndur, þá sérstaklega fyrir það að greint sé frá andláti mannsins samhliða því að rætt sé við íbúa í hverfinu sem hafa lagst gegn byggingu smáhýsa fyrir einstaklinga með fjölþættan vanda. 

„Ég byrjaði að starfa hjá Frú Ragnheiði árið 2018 og hef sökkt mér svolítið ofan í þennan málaflokk í kringum starfið og tekið eftir smekklausum fréttaflutningi hér og þar. Það hefur oft verið fjallað um húsnæði sem er verið að byggja fyrir þessa einstaklinga og þá hafa ýmsir aðilar stigið fram og sagt að það þurfi að finna betri stað og að þessi úrræði eigi ekki að vera hér eða þar,“ segir Elísabet í samtali við mbl.is. 

Frú Ragnheiður er verkefni á vegum Rauða krossins og liðsinnir einstaklingum sem eru húsnæðislausir eða sem nota vímuefni í æð. Þjónusta Frú Ragnheiðar er veitt í sérútbúnum bíl og á hverri vakt starfar hjúkrunarfræðingur og læknir er á bakvakt. Ýmis heilbrigðisþjónusta stendur til boða, svo sem almenn heilsufarsskoðun og aðhlynning. Einnig getur fólk sem notar vímuefni um æð sótt sér hreinar nálar, sprautur o.fl. sem þarf til að draga úr líkum á smiti og sýkingum.

Elísabet Brynjarsdóttir, hjúkrunarfræðingur Frú Ragnheiðar.
Elísabet Brynjarsdóttir, hjúkrunarfræðingur Frú Ragnheiðar.

„Nýlega var fréttaflutningur um fyrirtæki við Ártúnshöfða sem sögðu að nærvera þessara einstaklinga myndi hafa skaðleg áhrif á rekstur þeirra og svo framvegis. En þessi fréttaflutningur sem varð þarna í síðustu viku sem tengdist andláti einstaklings var örugglega svona með því smekklausasta sem ég hef séð frá því að ég byrjaði,“ segir Elísabet. 

„Þarna var einstaklingur að látast vegna ofskömmtunar sem er grafalvarlegt tilfelli út af fyrir sig. Fráfall hans er mikið högg fyrir aðstandendur, fyrir vini og fyrir þennan hóp í heild sinni. Það var mikið áfall fyrir marga að missa þetta líf. Að fyrstu fréttir sem berast af andlátinu séu tengdar því að það eigi ekki að byggja húsnæði á þessum reit, það er mikil vanvirðing og fordómar. Ég varð eiginlega bara smá orðlaus yfir þessu.“ 

Skortir skilning á aðstæðum fólks með fjölþættan vanda

Elísabet segir fordóma gagnvart fólki með vímuefnavanda eða sem glímir við heimilisleysi vera mikla í íslensku samfélagi. Það skýrist kannski ekki síst af því að fólk skortir skilning á aðstæðum þessara hópa. 

„Fólk sem kannski skilur ekki alveg þessar aðstæður eða málaflokkinn sér þetta og hugsar að þarna séu börn og að það sé ekki gott að þetta sé þarna. Ef fólk tengdi aðeins betur við það hvað væri að gerast, að þarna hafi einstaklingur verið að látast vegna samfélagslegra ástæðna og að þetta sé grafalvarlegt vandamál í samfélaginu okkar. Maður verður að horfa á þetta heildrænt til þess að vera ekki að afmennskuvæða þessa einstaklinga.“

Fjölmargir hafa gagnrýnt fréttaflutning og yfirlýsingar íbúa og félaga í Hlíðahverfinu á samfélagsmiðlum. 

„Ég var mjög þakklát fyrir það að það voru margir að láta sig þetta varða á samfélagsmiðlum. Þetta er hræðilegur viðburður en það var ákveðinn léttir að sjá hve margir stigu upp,“ segir Elísabet. 

Íþróttafélagið Valur hefur meðal annars gagnrýnt byggingu smáhýsa í Hlíðahverfinu. 

Heimilisleysi eykur vandann

„Ég held að fólk hafi bara ákveðna hugmynd af smáhýsum og hafi kannski ekki nægan skilning á því hvað þetta er. Í hlíðunum hafa íbúar til dæmis sagt að það sé mikill þungi af úrræðum hjá þeim og auðvitað verður maður að reyna að nálgast svona áhyggjur af kærleik og virðingu við íbúana, en með smáhýsunum er verið að byggja heimili fyrir einstaklinga, það er ekki bara úrræði. Að mínu mati kemur engum við hvaða úrræðum fólk þurfi á að halda innan síns heimilis,“ segir Elísabet. 

mbl.is/Sigurður Ragnarsson

„Það er svolítið hættulegt út frá fordómum, misrétti og bara mannréttindum ef einstaklingar sem njóta ákveðinna forréttinda í samfélaginu geta farið að ákveða hver eigi að búa hvar. Við eigum öll heima í þessu samfélagi og mér finnst það ekki koma fólki við hvaða aðstoð einstaklingur fær heima hjá sér. Þetta snýst um að einstaklingar geti haldið sinni reisn sem manneskjur. Heimilisleysi eykur vandann, það eru meiri líkur á að fólk noti úti, það eru meiri líkur á að það finnist sprautunálar á víðavangi, það eru meiri líkur á alls konar skaðlegum afleiðingum þess að nota vímuefni, fyrir utan það náttúrulega hvaða áhrif heimilisleysi hefur á einstaklinga.

„Með því að tryggja fólki heimili er verið að draga úr vandanum. Það að það eigi að vera smáhýsi þarna er ekki að auka vandann. Það eykur öryggi að eiga sér samastað,“ segir Elísabet. 

Þá segir Elísabet marga íbúa Hlíðahverfisins hafa haft við sig samband og greint frá því að málflutningur ákveðinna aðila um að ekki eigi að byggja smáhýsi í hverfinu vera eitthvað sem þeir styðji ekki. 

„Einstaklingarnir sem ég starfa með vilja ekki neyðast til þess að nota úti. Þau vilja ekki að aðrir séu hræddir við sig. Þau vilja ekki skapa vandræði fyrir nágranna. Þau vilja bara hugsa um sig og að komast í gegnum daginn. Það síðasta sem ég held að þau séu að hugsa um er að hrella börn eða valda einhverju ónæði. Þetta eru einstaklingar sem vilja tilheyra samfélaginu. Maður kemur alltaf aftur að þessari afmennsku. Áhrifin af því geta verið þau að fólk finni fyrir minni samkennd og minni skilning. Það er ákveðið skilningsleysi á því að þarna sé einstaklingur sem á  mannréttindi rétt eins og aðrir, á rétt á sinni reisn og á rétt á því að samfélagið mæti hans þörfum líka,“ segir Elísabet.

Frú Ragnheiður er á ferðinni á milli klukkan sex og níu á kvöldin sex daga vikunnar. Sími Frú Ragnheiðar er 788 7123. Einnig er hægt að hafa samband við hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið 1717.is. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar eru þar til svara allan sólarhringinn. Fullum trúnaði er heitið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert