Ekki ráðlagt að segja upp lífskjarasamningnum

Drífa Snædal, forseti ASÍ, sagði ekki ráðlegt að lýsa yfir …
Drífa Snædal, forseti ASÍ, sagði ekki ráðlegt að lýsa yfir að sambandið myndi segja upp kjarasamningum mbl.is/Eggert Jóhannesson

Drífa Snædal, forseti ASÍ, segist ekki telja ráðlegt að lýsa yfir að ASÍ muni segja upp lífskjarasamningum í haust, en segir mikilvægt að ASÍ beiti sér fyrir því að knýja fram það sem stendur í loforðum stjórnvalda og verja það sem hefur þegar áunnist.

Þetta sagði Drífa í ávarpi sínu á formannafundi ASÍ, sem stóð yfir í dag. Lífskjarasamningar voru eitt helsta umræðuefni fundarins í dag, en sumir verkalýðsleiðtogar telja að forsendur lífskjarasamninga séu brostnar.

Veiran ekki eina ástæða forsendubrests

Í ávarpinu sagði Drífa að vegna breyttra aðstæðna á atvinnumarkaði hafi forsendur kjarasamninga ekki staðist, og að næsta prófraun sambandsins verði þegar forsenduákvæði samningana koma til endurskoðunar í september. Þá hafi mál tengd lífskjarasamningnum ekki náð fram að ganga, og séu ástæður þess séu fleiri en aðeins þær tengdar kórónuveirunni.

 „Önnur stórmál hafa ýtt þessum til hliðar en covid ber ekki ábyrgð á öllu því sem aflaga hefur farið. Það er mjög misjafn áhugi hjá stjórnvöldum og atvinnurekendum að klára það sem lagt var upp með síðasta vor,“ sagði Drífa á fundinum.

Mikilvægt að kostaður lendi ekki á almenningi

Þar að auki segir Drífa brýnt að hækka atvinnuleysisbætur, lengja tekjutengda tímabil bótanna og draga úr skerðingum í almannatryggingakerfinu, til að vernda félagsmenn fyrir afleiðingum kreppunnar sem fylgja mun kórónuveirunni. Einnig sé mikilvægt að kostnaður af völdum veirunnar lendi ekki á almenningi, í formi niðurskurðar, gjaldtöku, kaupmáttarrýrnunnar eða sölu á opinberum eignum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert