Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir að við þær aðstæður sem skapast hafa vegna kórónuveirufaraldursins, sem ekki sé hægt að kalla neitt annað en neyðarástand, hafi það unnið með okkur en ekki gegn okkur að hafa ríkisstjórn sem skipuð er flokkum sem endurspegla breitt svið pólitískrar hugmyndafræði frá hægri til vinstri.
„Það hefur líka skipt máli við þessar aðstæður að hafa við stjórnvölinn flokka sem allir hafa ákveðna kjölfestu og innri styrk og fara ekki á taugum þó að gefi á bátinn,“ sagði Þórdís Kolbrún í eldhúsdagsumræðu sinni á Alþingi í kvöld.
Í ræðu sinni talaði Þórdís Kolbrún um góðan árangur Íslands í baráttunni gegn kórónuveirunni og þakkaði landsmönnum fyrir að hafa farið að ráðum sérfræðinga, auk þess sem hún þakkaði framlínustarfsfólki í baráttunni.
Hún sagði ríkisstjórnin hafa gripið til afgerandi ráðstafana til að lágmarka höggið á fólk og fyrirtæki og stuðla að kröftugri viðspyrnu, en hún sagði landsmenn einnig eiga hlut í þeirri viðspyrnu sem eigi sér stað.
„Það sem ég á við er það, að á sama tíma og við höfum upplifað harkalegan efnahagslegan samdrátt höfum við upplifað félagslegan uppgang, félagslega vakningu, félagslega sókn. Við höfum séð samhug, jákvæðni og bjartsýni hvert hjá öðru. Ef eitt orð getur fangað kjarnann í því einkenni á samfélagi okkar, sem ég er að reyna að lýsa hér, þá er það líklega orðið þrautseigja.“