Fluttur með þyrlu eftir gassprengingu í Þórsmörk

TF-EIR. Mynd úr safni.
TF-EIR. Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Karlmaður slasaðist í gassprenginu í tjaldi í Básum í Þórsmörk snemma í morgun. Í samtali við mbl.is segir Sveinn K. Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, að eldur hafi kviknað út frá gaskúti sem lak. Bruninn sé alvarlegur og maðurinn brunninn bæði á höndum og í andliti. Tveir voru í tjaldinu þegar sprengingin varð, en hinn var með minni háttar meiðsl.

Sjúkraflutningamenn frá Hvolsvelli voru kallaðir á staðinn en stuttu síðar óskað eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar. Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir að svo heppilega hafi viljað til að þyrlan hafi verið á leið í flug þegar útkall barst um klukkan sjö í morgun.

Því liðu aðeins tíu mínútur þar til þyrlan, TF-EIR, fór í loftið og lenti hún í Þórsmörk um klukkan 7:30, sótti manninn og aðstandanda og lenti aftur á Reykjavíkurflugvelli klukkan 8:13. 

TF-EIR á Þórsmerkurvegi í morgun.
TF-EIR á Þórsmerkurvegi í morgun. Ljósmynd/Landhelgisgæslan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert