Seint uppiskroppa með samgönguverkefni

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar.
Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Við lifum áhugaverða, krefjandi og lærdómsríka tíma – en aldrei í sögunni hafa verið til staðar önnur eins tækifæri og núna til að takast á við ógnir náttúrunnar með þekkingu og tækni,“ sagði Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum á Alþingi.

Sagði Líneik að nú væru tímamót í samgönguframkvæmdum, sem væri komnar á skrið eftir nær áratug hægagangs, og að mikil gerjun væri í samgönguverkefnum undir forustu Framsóknarflokksins og margir boltar á lofti.

„Við verðum seint uppiskroppa með samgönguverkefni í jafn dreifbýlu landi og Ísland er. Hugsið ykkur, á næstu fimmtán árum er ætlunin að fækka einbreiðum brúm á þjóðvegi 1 um meira en þrjátíu,“ sagði Líneik.

Þá sagði hún fjárfestingu og framfarir í samgöngum vera í senn mótvægi gegn samdrætti af völdum kórónuveirunnar, og undirstaða nýrra tækifæra.

 Ísland verði góður valkostur

Í ræðunni minntist Líneik á mikilvægi þess að veita úrræði til að  viðhalda atvinnu, styðja við hugkvæmni atvinnurekenda til að skapa ný störf, og tryggja fjármagn til að mæta aukinni aðsókn í framhalds- og háskólanám.

„Það þarf að tryggja að reglur vinnumarkaðsins og opinberra kerfa styðji við sveigjanleika. Fjórða iðnbyltingin, rafræn stjórnsýsla, fjarvinna og fjarnám, gefa okkur frábær verkfæri. Við verðum að tryggja að búseta á íslandi verði valkostur fyrir fólk sem vill eiga kost á störfum hvar sem er í heiminum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert