Sektuð um 15 milljónir fyrir skattsvik

Velta af útleigunni nam 28,3 milljónum króna.
Velta af útleigunni nam 28,3 milljónum króna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Yfirskattanefnd hefur úrskurðað að konu beri að greiða 14,9 milljóna króna sekt vegna vantalinna tekna af útleigu á húsnæði til ferðamanna á árunum 2016-2018. Konan leigði íbúðir út á Airbnb en taldi ekki fram tekjur af því og reiknaðist skattrannsóknarstjóra til að vantalin skattskyld velta hennar næmi 28,3 milljónum króna.

Konan segist hafa byrjað að leigja út herbergi á heimili sínu þegar hún og þáverandi sambýlismaður hennar misstu vinnuna og lentu í fjárhagsvandræðum. Leigustarfsemin vatt upp á sig og leigðu þau á endanum nokkur herbergi út.

Yfirskattanefnd taldi brot konunnar sönnuð og segir að brotin hafi verið af ásetningi, eða í besta falli af stórkostlegu hirðuleysi.

Konunni gafst kostur á að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd, en í úrskurðinum segir að hún hafi ekki gert athugasemdir við meðferð málsins og líti yfirskattanefnd svo á að hún mæli ekki gegn því að málið sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

Af sektarfjárhæð greiðast 11 milljónir í ríkissjóð en 3,9 í borgarsjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert