Fékk hæstu meðaleinkunn frá upphafi

Ivana á útskriftardaginn. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem …
Ivana á útskriftardaginn. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ivana skarar fram úr í lögfræði. Ljósmynd/Aðsend

Iv­ana Anna Ni­kolic út­skrifaðist frá Há­skóla Íslands með meist­ara­gráðu í lög­fræði í gær, svo­kallaða mag. jur.-gráðu, og hlaut auk þess hæstu meðal­ein­kunn sem gef­in hef­ur verið á meistaraprófi frá því að byrjað var að útskrifa með slíka gráðu frá lagadeild Háskóla Íslands, elstu lagadeild landsins.

Ivana hlaut 9,5 í meðaleinkunn en einkunnin sem hún toppaði var nokkrum kommustöfum lægri. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ivana skarar fram úr í lögfræði en hún fékk hæstu meðaleinkunn við útskrift úr bakkalárnámi í lögfræði sem og hæstu meðaleinkunn á fyrsta ári í lögfræði.

Áhuginn var lykillinn

Ivana segist hafa lagt mjög hart að sér í náminu. „Þetta hefur verið mikil vinna en maður reyndi samt að gleyma sér ekki í því að læra, ég reyndi að ná ákveðnu jafnvægi.“

Spurð hvort áhugi hennar á efninu hafi verið mikill segir Ivana:

„Algjörlega, og það var alltaf lykillinn að þessu. Ég hef alltaf haft það á bak við eyrað að ef ég ætla að standa mig vel verð ég að tileinka mér efnið. Í meistaranáminu gat maður valið alla áfangana og ég reyndi að velja þá sem höfðuðu helst til mín.“

Ivana valdi sér áfanga af ýmsum toga, til dæmis áfanga sem lutu að sveitastjórnarrétti, mannréttindum og fjármálarétti.

Passaði sig að stefna ekki á hæstu einkunn 

Ivana segist ekki hafa stefnt að því að fá hæstu einkunn frá upphafi.

„Ég passaði mig að gera það ekki, eða reyna að gera það ekki. Útgangspunkturinn var að reyna að standa mig sem best og vera sátt við árangur minn.“

Ivana hefur starfað sem laganemi hjá umboðsmanni Alþingis um tíma og er nú orðin lögfræðingur hjá embættinu. Spurð hvert draumastarfið sé segir Ivana:

„Ég veit það ekki ennþá. Það er erfitt að ákveða eitthvað eitt, ég reyni að horfa í kringum mig, sjá hvað er heillandi núna og prófa mig áfram.“

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert