Frönsk stofa sér um birtingar fyrir Íslandsstofu

Markaðsátakið Ísland saman í sókn er stærsta fyrirhugaða verkefni Íslandsstofu …
Markaðsátakið Ísland saman í sókn er stærsta fyrirhugaða verkefni Íslandsstofu um þessar mundir. Havas Media mun sjá um birtingu auglýsinganna. mbl.is/Björn Jóhann

Franska birtingarfyrirtækið Havas Media varð hlutskarpast í útboði Íslandsstofu á birtingarþjónustu og ráðgjöf. Samningurinn er til þriggja ára, með framlengingarákvæði, og nær til allra birtinga á auglýsingum frá Íslandsstofu, þar á meðal vegna átaksins Ísland - saman í sókn, markaðsverkefni íslenskra stjórnvalda sem er hluti af efnahagsaðgerðum vegna kórónuveirunnar. Í maí var greint frá því að samið hefði verið við bresku auglýsingastofuna M&C Saatchi um gerð auglýsinga vegna þess átaks, en hún varð hlutskörpust í útboði.

Auglýst var eftir tilboðum á Evrópska efnahagssvæðinu og buðu fjórir aðilar í verkið, Havas Media, MediaCom, Hanapin Marketing og Pipar Media en það síðastnefnda er í eigu Pipar/TBWA sem kærði útboð um gerð auglýsinganna í maí. 

Í tilkynningu frá Íslandsstofu segir að niðurstaða valnefndar hafi verið afgerandi. Havas Media hlaut 92 stig af 100 mögulegum en næsta tillaga, sem ekki er sagt hver er, hlaut 74 stig. Auglýsingastofan Havas er með þeim stærstu í heimi. Fyrirtækið hefur höfuðstöðvar í París, en starfsemi þess er í um 100 löndum og er Havas Media birtingardeild fyrirtækisins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert