Málstaðurinn ýtir manni upp erfiðu brekkurnar

Hjólað niður Laufásveg í morgun.
Hjólað niður Laufásveg í morgun. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

„Málstaðurinn ýtir manni upp erfiðu brekkurnar,“ segir Elvar Jónsson, einn skipuleggjenda hjólaferðar Team Rynkeby um landið, sem hófst í morgun.

Hjólreiðafólkið lagði af stað klukkan hálfellefu í morgun frá Barnaspítala Hringsins á Laufásvegi í miðbæ Reykjavíkur og var um þrjúleytið statt við Ferstiklu í Hvalfjarðarsveit. Fram undan er samtals um 850 km leið hringinn í kringum Ísland en gist verður í Borgarnesi í kvöld. 

Umræddur málstaður er söfnun fyrir Styrktarfélag krabbameinsveikra barna. Team Rynkeby er stórt evrópskt góðgerðarverkefni þar sem safnað er fyrir langveik börn og fjölskyldur þeirra og Rynkeby-hringurinn á Íslandi angi af þeirri hreyfingu.

Söfnuðu 23,6 milljónum í fyrra

Hópurinn stillir sér upp við barnaspítalann.
Hópurinn stillir sér upp við barnaspítalann. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Það er blandaður hóp af fólki sem fer hringinn að þessu sinni, sá yngsti um þrítugt og elsti 67 ára. Þau hjóla öll saman í þyrpingu og í fararbroddi eru oft sterkari hjólarar til að brjóta vindinn fyrir hina. Veðrið? „Það leikur við okkur, heiðskírt og sólarglennur öðru hvoru. Þetta gæti raunar varla verið betra, og það er bara rosa gott að komast af stað eftir mikla tilhlökkun,“ segir Elvar.

Eftir gistingu í Borgarnesi í kvöld verður keyrt norður á Sauðárkrók á morgun og þar tekinn hringur um Varmahlíð og Hóla. Næsta dag er Tröllaskagi tekinn og þar frameftir götum hringinn í kringum landið, oftast hjólaðir meira en 100km á dag.

Í fyrra safnaði Team Rynkeby 23,6 milljónum á Íslandi fyrir styrktarfélagið og Rynkeby víða um heim samtals um 1,5 milljarði. Hægt er að heita á Team Rynkeby núna með því að hringja í eftirfarandi styrktarnúmer: 907-1601 kr 1.500 - 907-1602 kr 3.000 - 907-1603 kr 5.000.

mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert