Reynt á þolmörk samkomubanns í Básum

Básar í Goðalandi. Ekki amalegt tónleikastæði.
Básar í Goðalandi. Ekki amalegt tónleikastæði. mbl.is/Árni Sæberg

Færri komust að en vildu í Bása í Goðalandi við Þórsmörk í kvöld en þar fara nú fram tónleikar hljómsveitarinnar GÓSS, sem söngvararnir Sigríður Thorlacius, Sigurður Guðmundsson og Guðmundur Óskar skipa.

Hljómsveitin endurtekur nú leikinn frá því í fyrra þegar fjölskylduhátíðin í Básum var endurvakin eftir nokkurt hlé. Í fyrra voru yfir þúsund manns á svæðinu enda engri kórónuveiru fyrir að fara og sóttkví hugtak sem fólk tengdi ekki við annað en gæludýr í Hrísey. Nú er staðan önnur og mannfjöldinn í Básum takmarkaður við 500 manns í samræmi við sóttvarnareglur.

Í samtali við mbl.is segir Lísa Margrét skálavörður í Básum að allir skálar og tjaldsvæði séu þegar uppbókuð, en bóka þurfti tjaldstæði fyrirfram. Flestir gestanna keyri inn eftir, en þó séu einhverjir sem leggi á sig göngu yfir Fimmvörðuháls og vinni þannig inn fyrir tónleikunum. „Stemningin er ótrúlega ljúf enda veðrið gott. Það er búin að vera sól í svo gott sem allan dag,“ segir Lísa.

Tónleikarnir hófust stundvíslega klukkan átta og viðbúið að þeim ljúki rúmlega tíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert