Mikið um útköll vegna ölvunar og hávaða

Lögreglan þurfti ítrekað að hafa afskipti af samkvæmum víða um …
Lögreglan þurfti ítrekað að hafa afskipti af samkvæmum víða um borgina vegna hávaða í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti alls um 100 málum á milli klukkan fimm í gær og fimm í morgun. Þó nokkrir þurftu að gista fangageymslu eftir nóttina. Meðal annars fór lögreglan í 20 útköll vegna hávaða og skemmtanaláta í fólki. Í sumum tilfellum var einnig um að ræða slagsmál.

Auk þess sinnti lögreglan fjölda útkalla í nótt vegna ölvunar eða vímuefnaneyslu. Þannig kemur fram í dagbók lögreglu að útkall hafi komið rétt fyrir sex í gær þar sem kona var ölvuð á rafskutlu og skapaði hún sjálfri sér og öðrum hættu.

Annað útkall var vegna ölvaðs manns sem var öskrandi á vegfarendur og kona sem var til vandræða í miðborginni. Þá var annar maður ógnandi og taldi lögreglan rétt að vista hann í fangageymslu vegna mikillar ölvunar.

Lögreglan fékk einnig tilkynningu skömmu eftir miðnætti um menn að sparka í bíla í miðborginni. Í gær fékk lögreglan í Kópavogi einnig tilkynningu um mann liggjandi á grasbala í sveitarfélaginu. Þegar lögreglan kom á staðinn og hafði afskipti af manninum hvaðst hann vera í sólbaði.

Nokkur ölvunar- og vímuakstursmál komu einnig upp í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert