„Mun taka við sem helsta útivistarsvæðið“

Rauðavatn er meðal annars á því svæði sem kallað er …
Rauðavatn er meðal annars á því svæði sem kallað er Austurheiðar. Nær það frá vatninu og norður meðfram efstu byggð að Reynisvatni og svo upp að Langavatni og aftur niður að Almannadal. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Á næsta ári gæti uppbygging hafist við innviði á útivistarsvæðinu á Austurheiðum, sem áformað er að verði aðal útivistarsvæði Reykvíkinga á komandi áratugum. Svæðið sem um ræðir er gríðarlega stórt, eða um 930 hektarar, sem jafngildir 9,3 ferkílómetrum, eða landsvæði sem jafnast á við tæplega tvö Breiðholt. Tillögur að rammaskipulagi fyrir svæðið voru kynntar fyrr í vikunni, en nú er leitað eftir umsögnum íbúa, samtaka og hagsmunaaðila.

Þrjár heiðar með fjölbreyttu landslagi

Austurheiðar eru í raun þrjár samliggjandi heiðar fyrir ofan byggð í Reykjavík. Svæðið nær frá Rauðavatni og yfir að Reynisvatni og Langavatni og er í raun þrjár heiðar; Hólmsheiði, Grafarheiði og Reynisvatnsheiði.

Austurheiðarnar eru um 930 hektarar að stærð. Tillaga að rammaskipulagi …
Austurheiðarnar eru um 930 hektarar að stærð. Tillaga að rammaskipulagi var kynnt í vikunni. Kort/Landmótun

Í dag er svæðið í aðalskipulagi skráð sem opið svæði, mest megnis útivistarsvæði, en einnig efnislosunarsvæði, iðnaðarsvæði (Orkuveitan er með veitumannvirki á svæðinu) auk þess sem ýmiss önnur starfsemi er á svæðinu, svo sem fisflugvöllur. Deiliskipulag er aðeins í gildi á litlum hluta svæðisins, meðal annars fyrir veitumannvirki og flugvöllinn, auk þess sem tvö svæði eru við vesturhluta Langavatns sem hafa verið til skoðunar sem uppbyggingasvæði fyrir mögulega ferðaþjónustu. Svæðið liggur í 85-140 metra hæð yfir sjávarmáli og er það talsvert fjölbreytt, bæði vel gróin svæði sem og opin svæði, melar og moslendi þar á milli. 

„Heiðmörk er að breytast

Heiðmörkin hefur undanfarna áratugi verið aðal útivistarsvæði Reykvíkinga og höfuðborgarbúa og eru þar meðal annars gríðarlega vinsælar gönguleiðir, reiðstígar, hjólaleiðir, gönguskíðabrautir sem og vegir sem fólk ekur sem vill aðeins komast út fyrir skarkala borgarinnar, en ekki þarf að fara langt til að komast í heiðanna ró.

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur.
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. Ljósmynd/Aðsend

Þó Heiðmörkin muni áfram verða útivistarparadís þá gæti þurft að takmarka þar umferð á komandi árum. Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur, segir í samtali við mbl.is að undanfarið hafi komið upp allskonar vatnsverndarsjónarmið í Heiðmörk, þar sem krafa sé um frekari takmörkun umferðar um svæðið. „Heiðmörk er að breytast og mun breytast. Vatnsverndin vegur alltaf þyngra og þyngra og það verður minna hægt að gera þar,“ segir hún.

Núverandi stígar á Austurheiðum.
Núverandi stígar á Austurheiðum. kort/Landmótun

Takmörkun umferðar í Heiðmörk á næstunni

Sigurborg segir að ljóst sé að takmarka verði bílaumferð inn í Heiðmörk á næstunni, en að enn sé ekki komið fram plan um það, en umræður séu í gangi um hvernig eigi að útfæra slíkt. Meðal annars sé til skoðunar hvort fjölga eigi bílastæðum við útjaðar svæðisins eða auka stýringu á umferð.

Sigurborg tekur fram að sú umferð sem gæti þurft að takmarka sé fyrst og fremst umferð bíla, en auk þess ríðandi umferð. Hún segir að ekki hafi verið horft til þess að takmarka þurfi neitt umferð gangandi, hjólandi og skíðandi fólks. Hins vegar leiði aukin vatnsvernd til þess að erfiðara verði að framkvæma á staðnum, því framkvæmdir kalli iðulega á tæki og bíla og þeim fylgi olía eða álíka eldsneyti.

Áformað er að leggja fleiri stíga (rautt) á svæðinu sem …
Áformað er að leggja fleiri stíga (rautt) á svæðinu sem tengja þá núverandi stígakerfi (blátt) betur saman. kort/Landmótun

Austurheiðarnar taki við sem helsta útivistarsvæðið

Vegna þessa „þá mun svæðið á Austurheiðum taka við sem helsta útivistarsvæðið borgarbúa,“ segir Sigurborg.

Sem fyrr segir eru Austurheiðar gríðarlega stórt svæði og segir Sigurborg að mjög margir geri sér ekki grein fyrir hvers konar paradís svæðið geymir. Hins vegar séu flestir sem þangað fari fljótir að átta sig á því hversu fjölbreytt svæðið er sem og sú útivist sem þar sé stunduð. Nefnir hún að Skógrækt Reykjavíkur og landgræðslufélög hafi starfað ötulega að skógrækt og að rækta upp land á Austurheiðum.

Núverandi reiðvegir á Austurheiðum.
Núverandi reiðvegir á Austurheiðum. kort/Landmótun

Í dag liggja nokkrir vegir í gegnum svæðið auk mikils fjölda göngu-, reið-, og hjólastíga. Sigurborg segir að í tillögum að rammaskipulaginu sé horft til þess að fjölmargir möguleikar fyrir útivist verði á svæðinu. Þannig sé meðal annars sérstaklega horft til þeirra sem eiga hunda, gert verður ráð fyrir sérstakri fjallahjólabraut, svæði verða hugsuð fyrri gönguskíðabrautir auk þess sem tenging reiðvega verður bætt og göngun- og hjólastígum fjölgað.

Gert er ráð fyrir fjallahjólabraut norðaustur af Reynisvatni.
Gert er ráð fyrir fjallahjólabraut norðaustur af Reynisvatni. kort/Landmótun

Þrír aðalinngangar á Austurheiðar

Þá er horft til þess að setja niður áningastaði víða um svæðið, en ein af grunnhugmyndunum er þó að hafa svokölluð hlið á þremur stöðum, en þar verður meðal annars aðstaða til að leggja bílum og halda inn á svæðið, upplýsingaskilti og fleira. 

Áformað er að hliðin verði við Rauðavatn, Almannadal og Reynisvatn, en við Rauðavatn er meðal annars nefnt í tillögunum að koma mætti upp bryggju út á vatnið, meðal annars til að auðvelda skautaiðkunn. Þá væri meðal annars hægt að koma upp bekkjum, grillaðstöðu, salernum og leiktækjum innar á útivistarsvæðinu. Samkvæmt tillögunum verða bílastæði þó víðar en við útjaðar svæðisins.

Samkvæmt tillögunum verða nokkrar gönguskíðaleiðir á Austurheiðum.
Samkvæmt tillögunum verða nokkrar gönguskíðaleiðir á Austurheiðum. kort/Landmótun

Framtíðarverkefni næstu áratuga

Sigurborg segir að samhliða kynningu á rammaskipulaginu sé kallað eftir athugasemdum og hugmyndum frá öllum, hvort sem það eru íbúar, félagssamtök eða hagsmunaðilar. Segir hún að hægt sé að senda athugasemdir á skipulag@reykjavik.is. Þegar vinnu við rammaskipulagið sé svo lokið sé það sett fram til að móta framtíðarskipulag fyrir allt svæðið. Þá er Sigurborg ekki að horfa til skamms tíma. „Ég held að þetta verði framtíðarverkefni til áratuga, enda Austurheiðar útivistarsvæði til allavega 50-100 ára.“

Hliðin þrjú við Austurheiðar eru við Rauðavatn, í Almannadal og …
Hliðin þrjú við Austurheiðar eru við Rauðavatn, í Almannadal og við Reynisvatn. kort/Landmótun

Sigurborg segir að þegar farið verði í einstaka framkvæmdir þurfi svo að deiliskipuleggja viðkomandi svæði, en þar nefnir hún sem dæmi fyrrnefnd hlið og bílastæði, sem og mögulega stærri áningastaði innan svæðisins.

Hægt er að kynna sér tillögur að rammaskipulagi fyrir Austurheiðar sem unnið var af Landmótun hér, en auk þess er hægt að horfa á kynningarfundinn frá því á mánudaginn þar sem Óskar Örn Gunnarsson, hjá Landmótun, fer yfir tillöguna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert