Stórhugur í Árneshreppi

Djúpavík í kvöldsól
Djúpavík í kvöldsól mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er enn á hugmyndastigi og ég sé fyrir mér að það þurfi fjögurra til fimm ára undirbúningstíma til að koma þessu í framkvæmd,“ segir Héðinn Ásbjörnsson, sem hlaut í síðustu viku styrk frá verkefninu „Áfram Árneshreppur!“ til að koma upp Baskasetri í Djúpavík í Árneshreppi á Ströndum. Í setrinu er ætlunin að fjalla um veru Baska hér á landi, en þeir stunduðu sjávarnytjar á Vestfjörðum um langt skeið fyrr á öldum. Einnig er hugmyndin að rekja á sýningu sögu Spánverjavíganna snemma á 17. öld, en sýslumaðurinn Ari í Ögri lét elta uppi og drepa áhafnir þriggja baskneskra skipa sem höfðu farist í Reykjarfirði. Setrið og sýningin verða sett upp í risavöxnum lýsistanki í gömlu síldarverksmiðjunni í Djúpavík.

Héðinn segir að mikinn undirbúning, þverfaglega vinnu og frekari fjárhagsstuðning þurfi til að Baskasetrið geti orðið að veruleika. Það sé ekki víst að svo verði, en styrkurinn verði nýttur til að skera úr um það. Hann segir að Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur sé ráðgjafi við verkefnið, en hann hefur kannað minjar um veru Baska á Íslandi.

Alls hlutu þrettán verkefni styrki sem samtals nema um fimmtán milljónum króna og miða þau öll að því að auðga mannlífið og samfélagið í þessu fámennasta sveitarfélagi landsins. Peningarnir koma frá Byggðastofnun fyrir milligöngu Vestfjarðastofu. Er Héðinn forsvarsmaður fjögurra annarra verkefna sem hlutu styrki. Hann er einn eigenda ferðaþjónustufyrirtækisins Hótel Djúpavík, sem m.a. rekur samnefnt gistihús á staðnum. Héðinn segir að nokkuð sé um heimsóknir ferðamanna til Djúpavíkur þessa dagana, aðallega Íslendinga, og umfangið viðráðanlegt fyrir fámennt starfslið fyrirtækisins. Mikil óvissa sé hins vegar um hvernig ferðaþjónustan muni þróast á næstunni.

Endurbætur við Krossneslaug

Stærsti styrkurinn fer til að gera endurbætur á búningsaðstöðu við Krossneslaug, sem er vinsæl sundlaug. Hún var gerð árið 1954 og er rétt fyrir ofan fjöruna svo að gestir horfa út yfir hafflötinn þegar þeir slaka á í lauginni. Það er ungmennafélagið Leifur heppni sem sér um rekstur laugarinnar.

Verkefnið Djúpavíkurhús snýst um að hanna og framleiða smáhýsi sem verða síðan seld um allt land. Húsin eru sögð hugvitssamlega innréttuð þannig að rýmið nýtist sem best og mjög skemmtileg í útliti. Húsin verða framleidd i Djúpavík.

Ómar Bjarki Smárason fékk styrk til að kortleggja og gera aðgengilegar upplýsingar um jarðfræði Árneshrepps, en í Árnesdalnum er miðja megineldstöðvar sem er talsvert yngri en Vestfirðir annars.

Kristjana Svarfdal fékk styrk til að koma upp jógasetri í gamla renniverkstæðinu í síldarverksmiðjubyggingunum í Djúpavík. Rýmið er sagt bjart og fallegt og gæti orðið einstakt þegar búið verður að taka það í gegn. Mörgum muni örugglega þykja það góð upplifun að stunda jóga í friðsældinni á staðnum.

Veittur var styrkur til að kaupa öryggisbúnað fyrir Sleðaferðir á Ströndum, m.a. Tetra-talstöðvar. Það var sett sem skilyrði að björgunarsveitin hefði aðgang að þeim ef á þyrfti að halda. Sleðaferðirnar njóta sívaxandi vinsælda enda magnað svæði sem farið er um.

The Factory er myndlistarsýning margra listamanna af ýmsu þjóðerni í sal verksmiðjubyggingarinnar í Djúpavík. The Factory er stýrt af Emilie Dalum, sem hefur séð um þetta verkefni í mörg ár, en alls hafa verið myndlistarsýningar í þessu rými frá því um aldamót.

Hópurinn er með margar hugmyndir sem nú verður unnið úr.
Hópurinn er með margar hugmyndir sem nú verður unnið úr. Ljósmynd/Aðsend

Þá var styrkur veittur til að bæta aðstöðu á tjaldstæði við Urðartind í Norðurfirði. Þar er nú verið að leggja lokahönd á vatnssalerni og snyrtingu fyrir tjaldferðalanga.

Enn eitt verkefnið er svokallað flóttaherbergi (e. Escape Room) í Djúpavík. Það er hugsað sem spennandi þraut fyrir unga sem aldna þar sem reynir á útsjónarsemi og að leggja saman vísbendingar til að fá út rétta niðurstöðu. Annars komast þátttakendur ekki út! Reiknað er með því að herbergið verði tilbúið næsta sumar. Flóttaherbergi af þessu tagi eru vinsæl í mörgum nágrannalandanna.

Elsa Rut Jóhönnudóttir fékk styrk til að þróa áfram ullarvinnslu, en hún hefur verið að gera tilraunir með ull og lopa. Vörur hennar eru m.a. seldar í Verzlunarfjelagi Árneshrepps og njóta mikilla vinsælda og þykja skemmtilegar og óvanalegar. Verzlunarfjelagið fékk einnig lítinn styrk til að bæta kaffiaðstöðu fyrir gesti, en þessi litla verslun þjónar ekki síst sem samfélagsmiðstöð í Árneshreppi. Þar hittast sveitungar og gestir.

Sögusýning í verksmiðjunni

Í verksmiðjubyggingunum í Djúpavík er sögusýning um tilurð og starfsemi verksmiðjunnar, sem var reist á árunum 1934-35 þegar mikla síld var að finna á miðunum í nágrenninu. Sýnt er hvernig menn leystu risavaxin verkefni við bygginguna og framleiðsluna með hugvitsemi og samtakamætti. Sögusýningin fékk styrk, ekki síst til að gera söguskilti um m.s. Suðurlandið, en stefni þess er í fjörunni í Djúpavík og vekur ávallt mikla athygli ferðamanna.

Loks fengu ferðamálasamtök Árneshrepps styrk til hönnunar og útgáfu á markaðsefni til að laða fólk til Árneshrepps. Að samtökunum standa allir ferðaþjónar í hreppnum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert