Ekki fleiri en 500 saman út ágúst

Brekkan á Þjóðhátíð verður eflaust ekki svona þétt setin þetta …
Brekkan á Þjóðhátíð verður eflaust ekki svona þétt setin þetta árið enda mega einungis 500 manns koma saman um verslunarmannahelgina. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir telur líklegt að fjöldatakmörkunum verði haldið í 500 manns út ágúst. Áður hafði Þórólfur lagt til við heilbrigðisráðherra að 2.000 manns mættu koma saman frá og með 13. júlí.

Þá er ekki útlit fyrir að fleiri en 2.000 verði leyft að koma til landsins daglega fyrir mánaðamót en eftir mánaðamót verður áhersla á Íslendinga í skimun á landamærunum.

Heimkomusmitgát 

Á mánudag tekur gildi svokölluð heimkomusmitgát þar sem Íslendingar sem koma til landsins fara í eina sýnatöku á landamærunum og svo í sóttkví í 4-6 daga. Að því loknu verða þeir kallaðir í aðra sýnatöku á heilsugæslu. Ef niðurstaðan úr henni er neikvæð eru þeir frjálsir ferða sinna. 

Þórólfur segist ekki gera ráð fyrir frekari breytingu á skimun fyrir mánaðamót og þríeykið muni spinna aðgerðir eftir því hvernig reynsla af skimun á landamærunum verði. Áfram verður áhersla á skimanir, smitrakningu, sóttkví og almennar smitvarnir. 

„Við erum að beita öllum ráðum í bókinni til þess að lágmarka það að smit breiðist út hér innanlands,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert