Kyrrsetning eigna Skúla stendur áfram

Skúli Gunnar Sigfússon og Sveinn Andri Sveinsson hafa tekist hart …
Skúli Gunnar Sigfússon og Sveinn Andri Sveinsson hafa tekist hart á í tengslum við uppgjör á þrotabúi EK1923. Samsett mynd

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá kröfu Sjöstjörnunnar, félags athafnarmannsins Skúla Gunnars Sigfússonar, sem jafnan er kenndur við Subway, um að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um að fresta endurupptöku kyrrsetningargerðar sem náði til fjögurra eigna Skúla og félaga í hans eigu. Heldur kyrrsetning eignanna því, eða þangað til ákveðin skilyrði hafa verið uppfyllt.

Kyrrsetningin tengist löngu máli þrotabúsins EK1923, en Skúli og skiptastjóri þess, lögmaðurinn Sveinn Andri Sveinsson, hafa nú um nokkurt skeið eldað grátt silfur saman. Sveinn Andri fór í nokkur dómsmál gegn Skúla vegna skiptanna og var meðal annars í stærsta málinu farið fram á að Sjöstjarnan, félag Skúla, myndi greiða þrotabúinu 223 og 21 milljón, auk vaxta, samtals yfir 400 milljónir. Í mars sneri Landsréttur að stærstum hluta við dómi héraðsdóms og dæmdi Skúla aðeins til að greiða þrotabúinu lægri kröfuna.

Sýslumaður hafði áður samþykkt kyrrsetningu á fjölda eigna Skúla vegna málsins, en eftir að dómur féll í Landsrétti fór hann fram á endurupptöku gerðarinnar hjá sýslumanni. Sýslumaður frestaði því þangað til niðurstaða væri komin hjá Hæstarétti hvort áfrýjunarleyfi yrði veitt. Það leyfi fékkst og verður málið tekið fyrir í október, samkvæmt því sem kemur fram í dómi héraðsdóms nú.

Vísar héraðsdómur því frá kröfu Skúla um að fella úr gildi ákvörðun sýslumanns um að fresta ákvörðuninni um endurupptöku kyrrsetningargerðarinnar.

Auk dómsmála þar sem þrotabúið krafði Skúla eða félög hans um greiðslur kærði Sveinn Andri Skúla og tvo starfsmenn félaga hans til héraðssaksóknara fyrir skilasvik. Héraðsdómur vísaði málinu frá, en Landsréttur felldi þann úrskurð úr gildi og fól héraðsdómi að taka málið aft­ur til efn­is­legr­ar meðferðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert