Rafnar sjósettur við hátíðlega athöfn

Kyriakos Mitsotakis, forsætisráðherra Grikklands, við athöfnina í kvöld.
Kyriakos Mitsotakis, forsætisráðherra Grikklands, við athöfnina í kvöld. Ljósmynd/Aðsend

Gríska landhelgisgæslan sjósetti fyrsta Rafnar 1100-björgunar- og eftirlitsbátinn frá skipasmíðafélaginu Rafnar Hellas við hátíðlega athöfn í Aþenu í kvöld, en landhelgisgæslan festi alls kaup á tíu bátum þeirrar gerðar og er að því stefnt að Rafnar afhendi einn bát í mánuði.

Kyriakos Mitsotakis, forsætisráðherra Grikklands, var viðstaddur og hélt ávarp við tilefnið, en gríska ríkissjónvarpið var með beina útsendingu frá sjósetningunni. 

„Þetta eru tímamót í sögu fyrirtækisins, enda um enn eina viðurkenninguna að ræða á bátahönnun Össurar Kristinssonar, sem er einstök á heimsvísu en þetta skrokklag á sér engan líkan,“ segir Haukur Alfreðsson, framkvæmdastjóri Rafnar. 

Hann segir söluferlið hafa verið langt og strangt, en að báturinn hafi verið í prófunum hjá grísku landhelgisgæslunni undanfarin misseri. 

„Þú finnur vart kröfuharðari viðskiptavin nema mögulegu íslensku Landhelgisgæsluna og  björgunarsveitirnar,“ segir Haukur. „Við hjá Rafnar erum að vonum stoltir af hönnuninni og bjartsýnir á framtíðina og þá sókn sem nú þegar er hafin inn á nýja og spennandi markaði,“ sagði Haukur.

Rafnar 1100 Tactical kemst á yfir 50 hnúta hraða, hann …
Rafnar 1100 Tactical kemst á yfir 50 hnúta hraða, hann er búinn 2x Mercury 450R utanborðsvélum. Þá er í bátnum auka eldsneytistankur til að tryggja langa drægni, en samtals tekur báturinn yfir 900 lítra af eldsneyti. Eins er báturinn sérstyrktur til dráttar og hífinga. Stýrishús, gluggar og hurðar eru skotheldar samkvæmt NATO Level 3 (anti-ballistic protection) stöðlum. Enn fremur er fullkomin FLIR næturmyndavél á toppi bátsins. Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert