Tryggvagata breytir um svip á næstunni

Tryggvagatan. Listaverk Gerðar mun njóta sín vel við nýtt útivistarsvæði.
Tryggvagatan. Listaverk Gerðar mun njóta sín vel við nýtt útivistarsvæði. mbl.is/sisi

Framkvæmdir við endurgerð Tryggvagötu, fyrir framan Tollhúsið, eru komnar á fullan skrið. Búið er að fjarlægja malbik og gangstéttarhellur. Lægstbjóðandi var Bjössi ehf., sem bauðst til að vinna verkið fyrir tæpar 400 milljónir. Verklok eru áætluð í ágúst.

Undanfarin ár hefur verið unnið að því að fegra Tryggvagötuna. Frá endurgerðu Bæjartorgi og Steinbryggju er nú haldið áfram til vesturs að Naustum. Svæðið fyrir framan Tollhúsið er sólríkt og þar verður útbúið almenningsrými en bílastæði fjarlægð. Mósaíkverk Gerðar Helgadóttur á Tollhúsinu mun því að loknum framkvæmdum fá að njóta sín betur en áður.

Naustin verða einnig endurgerð frá Tryggvagötu að Geirsgötu í sumar. Árið 2021 er svo áætlað að vinna síðasta áfanga verksins, frá Naustum að Grófinni.

Veitur munu endurnýja lagnir vatnsveitu, hitaveitu og rafveitu í götunni. Margar þessara lagna eru komnar til ára sinna. Skólplögnin og kaldavatnslögnin eru frá árinu 1925 og hafa því þjónað íbúum og fyrirtækjum í miðbænum í tæpa öld. sisi@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert