Hraustleg norðvestanátt

Í nótt hefur verið nokkuð hraustleg norðvestanátt á austanverðu landinu, um eða yfir 16 m/s á annesjum. Hún gengur að mestu niður fyrir hádegi, og það á einnig við um úrkomuna sem henni hefur fylgt. Vindur verður víðast kominn undir 8 m/s á Austurlandi um kaffileytið, en áfram verður skýjað að mestu norðaustan til á landinu í dag að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

„Annars er spáð vestlægri átt og verður hún fremur hæg víðast hvar, nema við suðurströndina, þar sem hún nær sér á strik eftir því sem líður á daginn, og gæti náð upp undir 15 m/s syðst seinnipartinn. Skýjað verður að mestu við vesturströndina, en bjartviðri á Suðurlandi og sunnanverðu hálendinu. Er kvölda tekur fer að þykkna upp á vestan- og suðvestanverðu landinu. Búast má við súld og þokulofti þar í nótt og fram eftir morgninum á morgun,“ segir ennfremur í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurspáin fyrir næstu daga

Vestlæg átt 3-8 m/s, en 8-13 austanlands til hádegis og með suðurströndinni seinnipartinn. Skýjað norðaustan til og við vesturströndina með lítilsháttar vætu en bjartviðri á Suðurlandi. Hiti yfirleitt á bilinu 8 til 15 stig að deginum, en allt að 20 stigum suðaustanlands.

Á laugardag og sunnudag:

Fremur hæg suðlæg átt og dálítil væta í flestum landshlutum. Hiti 10 til 18 stig.

Á mánudag og þriðjudag:
Hægur vindur og áfram víða dálítil væta. Kólnar norðan til.

Á miðvikudag:
Útlit fyrir norðaustanátt með blautu og svölu veðri um landið norðaustanvert. Mildara og úrkomuminna suðvestan til.

Á fimmtudag:
Dregur líklega úr norðaustanáttinni og styttir upp nyrðra. Hiti breytist lítið.

Veður á mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert