Samdráttur í launagreiðslum

mbl.is/Hari

Heildarsumma staðgreiðsluskyldra launa á Íslandi dróst saman á fyrri hluta árs 2020. Samdráttur launasummu frá janúar til og með maí 2020 var 2,8% miðað við sama tímabil árið 2019. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Á milli febrúar og mars 2020 var samdráttur um 1,8% og um 2,7% á milli mars og apríl. Hins vegar jókst heildarsumma launa um 7,7% á milli apríl og maí 2020. Aukning í heildarsummu launa á milli apríl og maí er í samræmi við árstíðarsveiflu síðustu ára en á því tímabili eykst launasumman ár hvert meðal annars vegna greiðslu orlofsuppbótar sem kveðið er á um í kjarasamningum.

Í talnaefni Hagstofunnar, sem nær aftur til ársins 2008, eru aðrar árstíðarsveiflur einnig greinilegar svo sem í árslok hvers árs þegar greidd er persónu- og desemberuppbót. Við eingreiðslur af þessu tagi hækkar launasumman í viðkomandi mánuði en lækkar aftur mánuði seinna.

„Þó að almennt megi greina hækkun á launasummu þegar umfangsmiklir kjarasamningar koma til framkvæmda gilti það ekki um launagreiðslur í apríl 2020 þegar hækkanir komu til framkvæmda hjá stórum hluta launafólks á íslenskum vinnumarkaði. Það má rekja til aðstæðna á vinnumarkaði meðal annars vegna COVID-19 og aðgerða stjórnvalda.

Til dæmis gafst launagreiðendum kostur á að sækja um atvinnuleysisbætur á móti skertu starfshlutfalli starfsmanna sinna, svokölluð hlutabótaleið sem kynnt var í fyrsta efnahagspakka ríkisstjórnarinnar þann 21. mars síðastliðinn. Það úrræði lækkar launagreiðslur meðan aðrar aðgerðir eins og stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti hafa minni áhrif. Í því tilfelli ættu launagreiðslur að vera óbreyttar en launagreiðendur eiga kost á að sækja um endurgreiðslu úr almannasjóðum.

Áhrif yfirstandandi efnahagsaðstæðna á staðgreiðsluskyldar launagreiðslur eru mismunandi eftir atvinnugreinum,“ segir á vef Hagstofu Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert