Ungir drengir til vandræða í Álftamýri

Drengirnir höfðu meðal annars verið að skemma rafmagnshlaupahjól.
Drengirnir höfðu meðal annars verið að skemma rafmagnshlaupahjól. AFP

Lögreglan þurfti að hafa afskipti af ungum drengjum við Álftamýri á tíunda tímanum í gærkvöldi. Drengirnir eru grunaðir um eignaspjöll, það er skemmdir á rafmagnshlaupahjóli og meðferð skotelda. Málið var unnið með aðkomu forráðamanna og tilkynningu til Barnaverndar.

Maður í mjög annarlegu ástandi var handtekinn við Austurvöll síðdegis í gær en hann hafði verið að áreita fólk. Maðurinn var færður á lögreglustöð þar sem hann var síðan vistaður í fangageymslu lögreglu sökum ástands.

Kona sem datt af reiðhjóli við Mjóddina síðdegis í gær var flutt með sjúkrabifreið á bráðamóttöku Landspítalans vegna verkja í kviðarholi og öxl.

Afskipti voru höfð af pari í mjög annarlegu ástandi þar sem þau voru í bifreið á bifreiðastæði í Grafarvoginum um kvöldmatarleytið. Maðurinn er grunaður um vörslu fíkniefna. Lyklar bifreiðarinnar voru haldlagðir vegna ástands þeirra. 

Skömmu fyrir klukkan 21 í gærkvöldi stöðvaði lögreglan bifreið í Austurbænum (hverfi 105) og er ökumaður hennar grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum, vörslu fíkniefna, þjófnað á skráningarmerkja og misnotkun skráningarmerkja. Bifreiðin var ótryggð og klippti lögreglan númer hennar af.

 Lögreglan stöðvaði för ökumanns við Skúlagötu á tíunda tímanum í gær. Hann er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, akstur án gildra ökuréttinda og brot á lyfjalögum að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Þrír ökumenn til viðbótar voru stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum vímuefna. Meðal annars var einn stöðvaður í Árbænum síðdegis en hann var undir áhrifum fíkniefna og hefur ítrekað verið stöðvar fyrir akstur þrátt fyrir að vera sviptur ökuréttindum. 

Síðdegis var bifreið ekið á vegrið á Vesturlandsvegi og skemmdist bifreiðin töluvert og þurfti að flytja hana af vettvangi með Króki.

Skömmu eftir miðnætti var tilkynnt til lögreglu um innbrot á heimili í Mosfellsbæ. Þar hafði útihurð verði spörkuð upp og farið inn og stolið verðmætum. Húsráðandi hafði ekki verið heima síðustu daga. Málið er í rannsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert